141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

fjárveitingar til menningarverkefna úti á landi.

242. mál
[17:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda. Það er kannski ástæða til að minna á að við 2. umr. um fjárlagafrumvarpið 2012 setti fjárlaganefnd fram þær tillögur um breytingar á safnliðakerfi fjárlaga sem hér er vísað til. Markmiðið var að tryggja betur en áður að úthlutun styrkja til hinna ýmsu verkefna væri á faglegum grundvelli og jafnræði yrði meðal umsækjenda um slíka styrki.

Fjárlaganefnd valdi þá leið að skipta því sem áður hafði verið úthlutað á vegum nefndarinnar á þrjá staði. Það var í fyrsta lagi til sjóða og annarra sem hafa lögbundin hlutverk á sínum sviðum. Í öðru lagi til menningarsamninga stjórnvalda við Samtök sveitarfélaga. Í þriðja lagi var það fjármagn sem ekki heyrði á augljósan hátt undir þá liði flutt á safnliði hjá hverju ráðuneyti fyrir sig og úthlutað í samræmi við ákveðnar úthlutunarreglur í kjölfar auglýsinga eftir umsóknum, og er ástæða til að fara yfir það.

Það runnu samtals rúmlega 92 millj. kr. til sjóða og verkefna eins og Bókmenntasjóðs, starfsemi atvinnuleikhópa, Launasjóðs höfunda fræðirita, Safnasjóðs, Húsafriðunarsjóðs o.s.frv.

Framlög til samnings við Akureyrarbæ um menningarstarfsemi hækkuðu um 7,5 millj. kr. og 82,7 millj. kr. runnu til að gera viðauka við menningarsamninga við sveitarfélög. Þetta var að sjálfsögðu, ég tek það fram, allt með þeirri hagræðingu sem hefur verið inni á öllum liðum á sviðum menningar. Ég hef hins vegar orðið vör við þann misskilning að þessar 82,7 millj. kr. hefðu átt að vera umtalsvert hærri fjárhæð. Það má kannski útskýra með því að ákveðin verkefni sem menn höfðu talið að færu inn í menningarsamninga — og ég vitna þar til verkefna norðausturnefndarinnar svokölluðu og norðvesturnefndarinnar — voru látin halda sér með óbreyttum hætti.

Aukningunni sem fór til menningarsamninganna var skipt á milli samninga á grundvelli almennrar reiknireglu samninganna en ekki með tilliti til þess hvernig styrkir á safnliðum síðustu ára hefðu dreifst. Það varð hins vegar til þess að heildarfjárveitingar til menningarverkefna á öllum landsvæðum breyttust frá því sem verið hafði, ef við miðum við árið 2011 sem er ekki sjálfgefið að gera, að miða bara við síðasta ár fjárlagaúthlutunar. Það varð niðurstaðan eftir að kallað hafði verið eftir tillögu frá landshlutasamtökum sveitarfélaga að gera þetta með þeim hætti. Það barst ekki tillaga þaðan og þetta var þá talin skynsamlegasta leiðin til þess hreinlega að halda hinni almennu reiknireglu samninganna og tryggja jafnræði landshluta.

Það liggur fyrir að viðaukinn sem þá var gerður um framlag til stofnstyrkja og/eða rekstrarstyrkja til að efla listir, söfn og menningarstarfsemi skiptist þannig og ég get þá miðað við fjárlög 2011.

Austurland fær 15,5 millj. kr. en fékk 13 millj. kr. á fjárlögum 2011. Vesturland fær 10,3 millj. kr. en fékk 8,5 millj. kr. árið 2011. Norðurland eystra fær 12,4 millj. kr. árið 2012 en fékk 21,9 millj. kr. árið 2011 þannig að þar var lækkun. Suðurnes fá 10,3 millj. kr. en fengu 3 millj. kr. á fjárlögum 2011, þar var mjög mikil hækkun. Suðurland fær 12,4 millj. kr. núna en fékk 6,7 millj. kr. á fjárlögum 2011 þannig að þar var mikil hækkun líka. Norðurland vestra fær 10,3 millj. kr. nú en 16 millj. kr. árið 2011, þar var lækkun. Vestfirðir fá 11,4 millj. kr. nú en fengu 13,6 millj. kr. á fjárlögum árið 2011.

Það sést að sum svæði fá meira en önnur samkvæmt reiknireglunni þannig að við miðum nú við það að þau svæði sem eru lengst frá Reykjavík, stærst landfræðilega, fá hlutfallslega samt meira, þ.e. Austurland, síðan Norðurland eystra og Vestfirðir. En hins vegar höfðu sum svæði fengið talsvert lægri fjárhæðir á safnliðum en önnur. Markmið reiknireglunnar var þá að tryggja sem réttlátasta dreifingu á milli svæða og jafnræði á milli þeirra.

Eins og ég nefndi áðan miða ég við árið 2011. Framlög ákveðin af fjárlaganefnd eru hins vegar að öllu jöfnu einungis ákveðin til eins árs og því er kannski ekki hægt að segja að skiptingin hefði orðið sú sama árið 2012 ef við hefðum haldið óbreyttu fyrirkomulagi. Þar hafa því orðið mjög miklar sveiflur ef við tökum til dæmis tíu ára samanburð, sem ég hef því miður ekki tíma til að gera hér, á milli einstakra svæði í úthlutunum fjárlaganefndar.

Ég nefni það hins vegar að til úthlutunar annarra styrkja var veitt tæplega 122 millj. kr. til 68 verkefna. Þau eru ekki greind eftir kjördæmum og þá er ég að vísa í þá styrki sem var úthlutað af hálfu ráðuneytisins en þeir dreifðust að sjálfsögðu um landið allt, í rauninni fyrst og fremst til ýmissa verkefna sjálfstæðra félagasamtaka.

Það sem ég hef farið yfir er eingöngu framlögin (Forseti hringir.) til menningarsamninganna en að sjálfsögðu eru þau verkefni sem voru styrkt af ráðuneytinu, í gegnum það úthlutunarferli sem þar fór fram, og í gegnum sjóðina (Forseti hringir.) dreifð um landið allt.