141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

fjárveitingar til menningarverkefna úti á landi.

242. mál
[17:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég undirstrika að mér finnst svörin vera skiljanleg í þessu tilfelli. Við eigum að gefa þessu verklagi og umhverfi lengri tíma. Ég var ein af þeim sem stóðu að þessu á sínum tíma í fjárlaganefnd og þekki þessi mál frá mörgum hliðum, þ.e. framlög til menningarmála. Ég tel að það hafi verið heilbrigt og rétt að breyta fyrirkomulaginu og ef einhverjir vankantar eru á því sníðum við þá einfaldlega af. Við þurfum gegnsæi.

Þeir umsækjendur sem leita til þingsins eða ráðuneytisins verða að vita hvaða verklagsreglur eru til staðar, það verður að vera gegnsæi og síðast en ekki síst þarf að kanna hvaða tillögur eru best til þess fallnar að efla menningarstarf bæði á landsbyggð og í þéttbýli. Það má ekki verða þannig að eitthvert eitt kjördæmi hvar sem er á landinu, hvort sem það er á suðvesturhorninu eða úti á landi, fái meiri úthlutun í krafti fjölda þingmanna í fjárlaganefnd eða öðrum nefndum þingsins.

Það sem skiptir að mínu mati mestu máli (Forseti hringir.) eru gæði verkefna og að þau séu til þess fallin að efla samfélag okkar bæði á landsbyggðinni og í þéttbýli.