141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

fjárveitingar til menningarverkefna úti á landi.

242. mál
[17:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er sammála síðasta ræðumanni um að gæði verkefna skipta sköpum og eins að samfelld og viðunandi þjónusta á þessu sviði eigi að vera við landsmenn alla. Menn eiga að fá svipað fyrir skattana sína að hlutfallstölu hvar sem þeir búa á landinu, en svo er reyndar ekki.

Ég er ósammála því sem kom fram í máli Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, að fjölmenni eigi að einhverju leyti að ráða miklu. Ég tel að fjarlægðin frá höfuðborginni þar sem ríkisstyrkta menningin er að mestum hluta iðkuð og staðsett eigi að einhverju leyti að ráða framlögum. Suðurnesin eru á höfuðborgarsvæðinu að mati þess sem hér stendur. Miklu fremur eigum við að auka stuðlana í framlögum til þeirra svæða sem eru fjærst miðstýrðri ríkisstyrktri menningu sem er að nær öllu leyti á höfuðborgarsvæðinu.

Ég vil beina tveimur spurningum til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og endurtek að ég er ánægður með svör hennar. Ég vek hins vegar athygli á því að við þurfum sífellt að vera með þessi mál til skoðunar. Ég vil líka taka það fram að ég er enn þá sammála því efnislega að safnliðakerfi fjárlaga hafi verið breytt með þessum hætti en við þurfum að skoða það reglulega hvort vel hafi til tekist. Þess vegna kem ég hingað upp og spyr hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra þessara spurninga: Af hverju hafa framlög lækkað eins og á Norðurlandi eystra um nálega 100% á milli þessara tveggja fjárlaga? Er aukning til menningarsamninga úti á landi í samræmi við þá aukningu sem varið (Forseti hringir.) hefur verið til málaflokksins til helstu menningarstofnana á höfuðborgarsvæðinu? Er samhengi þarna á milli?