141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

eyðing lúpínu í Þórsmörk.

178. mál
[17:26]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég tek undir það sem fram kom í inngangi hennar um að þetta er nokkuð heitt mál. En það er samt sem áður gaman að segja frá því að þetta er í fyrsta skipti sem þetta mikla hitamál er rætt í ræðustól Alþingis frá því að ég tók við embætti umhverfisráðherra, það hefur stundum verið rætt af meiri pólitískum hita en meira að segja aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Varðandi spurningu hv. þingmanns vil ég fyrir það fyrsta geta þess, og mér finnst afar mikilvægt að það liggi fyrir, að lúpína er gríðarlega öflug landgræðsluplanta, ég held að enginn geti andmælt því. Fljótlega eftir að ég tók við embætti umhverfisráðherra ákvað ég að freista þess að kalla saman þau sjónarmið sem uppi eru varðandi nýtingu plöntunnar í þágu uppgræðslu, en ekki síður þau sjónarmið sem komið hafa fram hjá þeim sem telja að plantan geti síðan ógnað annars konar flóru. Niðurstaða vinnu Náttúrustofnunar Íslands og Landgræðslunnar var mjög góð og ég er afar stolt af því að þar tókst að stefna saman þessum sjónarmiðum. Þar freistaði ég þess að setja málið í öfgalausan farveg þar sem um væri að ræða plöntu sem er ágeng og öflug og sem getur ógnað, en sem getur líka verið mjög gagnleg þar sem hún á við. En við þurfum að hafa stjórn á lúpínu eins og öllum öðrum inngripum í náttúruna.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvernig staðið hafi verið að eyðingu lúpínu í Þórsmörk og nágrenni þá hefur í raun aldrei verið gerð bein tilraun til að eyða lúpínu á Þórsmerkursvæðinu en gerðar hafa verið smávægilegar tilraunir með að draga úr útbreiðslu hennar á því svæði af hálfu tveggja stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, þ.e. annars vegar Skógræktar ríkisins og hins vegar Landgræðslunnar, en Skógræktin er umsjónaraðili þess svæðis sem um ræðir.

Af hálfu Landgræðslunnar var gerð tilraun sumarið 2009 til að hefta útbreiðslu lúpínu með illgresiseyði og upprætingu á tveimur litlum svæðum á afréttunum Steinsholti og Stakkholti sem eru í um 200 metra hæð yfir sjó. Sú tilraun mistókst einfaldlega. Skógrækt ríkisins hefur unnið að því að styrkja samkeppnisgróður lúpínunnar, birkiskóginn, í öðrum lúpínubreiða með áburðargjöf, þ.e. með því að ýta undir samkeppnina birkiskógarmegin, ef svo má að orði komast. Skógræktin telur þá leið vænlega til að minnka útbreiðslusvæði lúpínunnar og er stefnt á frekari aðgerðir með þessari nálgun til að hefta útbreiðslu lúpínu í Þórsmörk með því að stuðla að framvindu birkiskóga með áburðargjöf.

Ráðuneytinu er ekki kunnugt um aðrar aðgerðir í þessa veru í Þórsmörk og nánasta nágrenni á síðustu árum. Ég hef nefnt tvær aðgerðir í því sambandi, annars vegar aðgerðir Skógræktarinnar varðandi birkiskóginn og hins vegar þessa einu tilraun sumarið 2009 á vegum Landgræðslu ríkisins. Aðrar stofnanir hafa ekki komið að þessu. Ég held að það séu allir sammála um að lúpínan á ekki sérstaklega vel heima á þessu svæði og hún á það til að flæmast yfir stærri svæði en við viljum sjá og draga þar með úr líffræðilegum fjölbreytileika og breyta náttúrlegri ásýnd. Um er að ræða mjög sterk inngrip í ásýnd svæða þar sem lúpínan er litsterk og það er töluvert af henni til að mynda í Básum, á Goðalandi, og það eru líkur til að hún eigi eftir að breyta náttúrlegri ásýnd þessara svæða vegna þess hversu afgerandi hún er í umhverfinu.

Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi svarað fyrirspurn hv. þingmanns og þakka enn fyrir dirfsku hennar að taka þetta mál upp hér.