141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

eyðing lúpínu í Þórsmörk.

178. mál
[17:31]
Horfa

Jón Kr. Arnarson (Hr):

Herra forseti. Landgræðslan hefur náttúrlega það mikilvæga hlutverk í þjóðfélagi okkar að vernda gróður og jarðveg. Þess vegna skýtur dálítið skökku við ef Landgræðslan notar gereyðingarefni til að eyða öllum gróðri, ekki síst í ljósi þess að í tilfelli lúpínunnar hlýtur það að vera dæmt til að mistakast, eins og raunin varð af því að svona gereyðingarefni býr fyrst og fremst í haginn fyrir lúpínuna með því að eyða samkeppnisgróðri.

Ég held að það hljóti að vera miklu vænlegra að flýta framvindu birkiskógarins með hugsanlegri áburðargjöf og gróðursetningu því að það er alveg ljóst að lúpínan er eins og aðrar frumbýlisplöntur, hún víkur á endanum fyrir öðrum gróðri. Hún fer ekki inn í skóga þannig að skógrækt hlýtur að vera mjög öflug leið til að koma í veg fyrir útbreiðslu lúpínu. Lúpínan fer ekki inn á fullgróið land (Forseti hringir.) og því hlýtur að vera eðlilegra að beita öðrum aðferðum svo sem að efla landgræðslu og skógrækt.