141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

eyðing lúpínu í Þórsmörk.

178. mál
[17:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fyrir það hugrekki að koma og ræða við mig um lúpínuna, það mikla hitamál. Tilgangurinn með fyrirspurninni var að draga það fram hvort okkur þyki eðlilegt að fara með eitur inn á svæði sem þessi. Mér finnst það ekki í lagi. Mér finnst skrýtið að hægt sé að gera það án þess að spyrja nokkurn mann hvort það sé í lagi á þessu svæði vegna þess að þarna er um að ræða viðkvæmt svæði sem er ein af okkar helstu náttúruperlum. Við þekkjum nú umræðuna um það þegar nokkrar sauðkindur villtust þarna í nágrennið í sumar og það varð allt vitlaust í samfélaginu. En hins vegar má fara með eitur inn á þetta svæði sem getur haft alvarlegar afleiðingar á annan gróður, eins og einn hv. þingmaður minntist á áðan.

Þá veltir maður þeirri spurningu fyrir sér hvort það sé einhver skekkja í kerfinu fyrst þetta er hægt. Er þetta eitthvað sem skipulagsyfirvöld eiga að segja til um, þ.e. hvort nota megi þessi efni inn á svæðum sem þessum? Á Umhverfisstofnun að tilgreina eitthvað í þessu sambandi? Á til dæmis að tilgreina það í friðlýsingarskilmálum? Við höfum áður rætt um friðlýsingar, ég og hæstv. ráðherra. Mér finnst þetta ekki í lagi. Mér finnst við komin mjög langt þegar við erum farin að nota „roundup“, eins og ég held að hafi verið gert í því tilviki sem hæstv. ráðherra nefndi, á svæðum sem þessum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki tilraunum með að nota eiturefni sem þessi á viðkvæm svæði og þessar náttúruperlur okkar þar með lokið?