141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Síðar í dag fara fram umræður um þjóðaratkvæðagreiðsluna og framhald stjórnarskrármálsins. Ég ætla ekki að þjófstarta þeirri umræðu, en það er full ástæða til að vekja sérstaklega máls á niðurstöðunni við spurningu nr. 2 á laugardaginn, spurningunni sem svo hljóðaði, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?“

Niðurstaðan varð sú að næstum 83% þátttakenda svöruðu þeirri spurningu jákvætt. Þetta var skýrasta svarið af sex skýrum svörum í atkvæðagreiðslunni. Samtals voru það 84.633 Íslendingar sem sögðu já við spurningunni en 17.441 nei.

Fyrir utan framhald stjórnarskrármálsins sem er auðvitað á dagskrá þingsins liggur fyrir okkur að vinna úr hinum efnislegu niðurstöðum í atkvæðagreiðslunni með öðrum hætti. Við getum líka haft stuðning í þessu máli af mikilli fræðilegri og pólitískri vinnu, nú síðast í formi sérstakrar skýrslu um stefnumörkun í auðlindamálum sem væri full ástæða til, forseti, að taka til sérstakrar umræðu.

Menn eru byrjaðir að túlka eins og alltaf og þá er rétt að líta á frumtextann. Hér er bara einn frumtexti. Grundvöllur spurningarinnar er í 34. gr. frumvarpsdraganna frá stjórnlagaráðinu. Þar segir í 1. mgr., með leyfi forseta:

„Auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.“

Í 4. mgr. segir að hægt sé að veita leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn.

Það er dagljóst að eftir þessa atkvæðagreiðslu er komin upp ný staða í auðlindamálunum. Þrætum undanfarinna ára er lokið. Nú eigum við að slíðra sverðin eins og ágætur ráðherra sagði í morgun í blaði og vinna saman að því að koma vilja þjóðarinnar í framkvæmd. Við kjörnir fulltrúar erum þjónar fólksins, þjónar þjóðarinnar. Þjóðin hefur talað.