141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska þeim til hamingju sem hvöttu til þess að þjóðin segði já við 1. spurningunni í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardaginn. Niðurstaðan var mjög afdráttarlaus og þótt ég hafi ekki verið sáttur við hana óska ég hinum til hamingju. En jafnframt vex ábyrgð þeirra á því að túlka þá niðurstöðu. Þeir sem lögðu til og ráðlögðu fólki að greiða atkvæði með þessari tillögu hljóta núna að standa og bera ábyrgð á þeirri ráðleggingu sinni.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem hefur haft þetta mál til umfjöllunar í nefndinni í rúmt ár, hvort ekki sé kominn tími til þess að leggja fram þetta frumvarp og af hverju það var ekki lagt fram í dag eða í gær. Það liggur fyrir, það er tilbúið, greinargerðin fylgir með. Af hverju er frumvarpið ekki lagt fram, af hverju hefur það ekki verið lagt fram nú þegar? Þjóðin er búin að greiða atkvæði um það. Er eitthvað að vanbúnaði?

Þá kemur hin spurningin: Hvað þýða orðin „að leggja til grundvallar“? Hversu miklu má breyta í tillögum ráðsins? Erum við bókstafstrúar og megum við ekki breyta einni einustu kommu? Hvað telur hv. þingmaður að megi breyta miklu? Ég reikna með að hún muni segja að hægt sé að breyta öllu öðru en efnislegum atriðum. Þá langar mig að spyrja: Ef það kæmi fram rökstudd, efnisleg gagnrýni um að eitthvað væri ekki í lagi, mættum við þá ekki breyta því? Ég nefni til dæmis hugmyndina um Lögréttu sem mér líst afskaplega vel á, eins konar stjórnlagadómstól, en uppbyggingin á henni hjá stjórnlagaráði er ekki góð. Ég hef komið með aðra tillögu um Lögréttu og reyndar fjöldann allan af öðrum tillögum til nefndarinnar. Ég spyr hv. þingmann: Fellst hún á það að uppbygging Lögréttu verði breytt á þann hátt sem ég hef lagt til?