141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir hamingjuóskir til þeirra sem sögðu já í þeim miklu kosningum sem voru á laugardaginn. Hann spyr spurninga sem mér finnst að hann hafi spurt áður (PHB: … ekki svar.) og nokkuð oft.

Hvað þýðir að leggja til grundvallar, spyr hv. þingmaður. Það má vel vera að mig misminni að ég hafi svarað þessu oft en ég ætla að reyna einu sinni enn. Fyrsta spurningin sem lögð var fram var þessi:

„Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“

Það þýðir nákvæmlega það sem er í orðanna hljóðan: Vilt þú að frumvarp sem lagt verður fyrir Alþingi um breytingar á stjórnarskránni og rætt verður á Alþingi í þremur umræðum eins og lög gera ráð fyrir byggi á tillögum stjórnlagaráðsins? Hvernig gæti ég orðað þetta skýrar? Að frumvarpið verði efnislega byggt á tillögum stjórnlagaráðsins. Út á það gengur þetta.

Hv. þingmaður spyr: Af hverju er frumvarpið ekki lagt fram núna? Það er vegna þess, eins og hann veit líka, að við höfum verið með sérfræðinga til að vinna að þessu fyrir okkur. Einn þeirra mætti reyndar á fund hjá okkur í morgun og skýrði okkur frá vinnunni og það er alveg ljóst að þeir eru búnir að fara mjög ítarlega og efnislega yfir þetta en lokahnykkurinn er eftir. Það er vegna þess að þeir gátu ekki klárað sitt verk fyrr en ljóst yrði hver úrslit atkvæðagreiðslunnar yrðu, vegna þess að ætlunin er og hefur aldrei verið önnur ætlun en sú að taka mark á niðurstöðunum.