141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil benda þeim sem eru í prófkjöri hjá Samfylkingunni á að sú kosning sem fór fram síðastliðinn laugardag var ráðgefandi. Þeir geta notað til heimabrúks sínar ræður sem skipta máli í prófkjörinu.

Það sem mig langar til að segja er að þingmenn hafa hér sagt að þjóðin hafi talað og meirihlutavilji sé til staðar. Skiptir engu máli í þessu samhengi að það voru eingöngu 33% kosningarbærra manna sem sögðu já við spurningu um hvort tillögur stjórnlagaráðs ættu að gilda. 33% allra kosningarbærra manna sögðu já við því. Ég fæ ekki séð að þar hafi þjóðin talað. En það breytir því ekki, virðulegi forseti, að við getum ekki heldur hunsað það sem fram kom í kosningunum. Ég hef í því sambandi áhyggjur af því sem mér hefur heyrst koma fram í fjölmiðlum, eins og til dæmis í viðtölum við hv. formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en það má lesa úr orðum hennar að nú eigi að keyra í gegn á ofsahraða tillögur stjórnlagaráðs. Það verður ekki þannig, hæstv. forseti. Við hljótum að þurfa að fara yfir hverja og eina tillögu, vega hana og meta, kalla eftir áliti. Það hlýtur að vera þannig.

Nú hlæja þingmenn og ég geri mér grein fyrir því að suma þingmenn skiptir það engu máli hvort vönduð vinnubrögð eru viðhöfð eða ekki. Þeir vilja bara fá þessar tillögur í gegn, en það er þeirra mál. Það er nefnilega þannig að þingið hefur ekki enn þá unnið sína vinnu varðandi tillögurnar. Við hljótum því að setja okkur í þær stellingar að fara yfir þær.

Sumar af tillögum stjórnlagaráðs eru ágætar og eiga fullt erindi í stjórnarskrá. Aðrar eru algerlega galnar að mínu viti og um þær ætla ég að fjalla í þessum þingsal og annars staðar ef ég mögulega fæ tækifæri til. En heildarmyndin er þessi: Það var lítill hluti Íslendinga sem greiddi því atkvæði sitt að tillögur ráðsins ættu að gilda, 33%. Aðrir sátu annaðhvort heima eða voru á móti. Það þýðir ekki að þjóðin sé bara þessi 33%. Þjóðin er vitanlega allir og þegar þingmenn segja að þjóðin hafi talað, þýðir það að þau 70% sem sögðu nei eða voru heima séu ekki hluti þjóðarinnar?