141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er hálfslegin yfir því hvernig þessi umræða byrjar í nýrri vinnuviku í störfum þingsins. Stjórnarliðar keppast við að fara yfir atburði helgarinnar og túlka þessa þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er alveg greinilegt, frú forseti, að hér er verið að slá taktinn um hvernig á að keyra þingmálin í vetur, það á að setja stjórnarskrármálin á oddinn eins og stjórnarliðar hafa hótað allt þetta kjörtímabil.

Gott og vel, Framsóknarflokkurinn telur þörf á því að breyta nokkrum ákvæðum í stjórnarskránni eins og ég hef ætíð haldið fram en það er best að það komi fram í þessari umræðu að á meðan 8 þús. manns ganga um án atvinnu, rúmlega 8 þús. eru brottfluttir umfram aðflutta til landsins síðan í ársbyrjun 2008 eru þessi mál á dagskrá þingsins.

Virðulegi forseti. Ég hlýt að kalla eftir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, ég hlýt að kalla eftir því að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að koma atvinnulífinu af stað, koma rammaáætlun í gegnum þingið svo hægt sé að fara að stunda orkufrekan iðnað, ég tala nú ekki um í ljósi síðustu atburða með gengislánadóminn sem féll í Hæstarétti í síðustu viku, þ.e. að gengistengdu lánin eru ólögleg. Nú hlýtur ríkisstjórnin að fara að beita sér í málefnum heimilanna og atvinnulífsins. Ef ekki, þá er þessari ríkisstjórn tæpast vært í þinginu fyrst þessi mál liggja svo skýrt fyrir.

Nei, hér verður spuninn keyrður áfram og það verður fyrirkvíðanlegt fyrir íslenska þjóð að þessi mál skuli koma með þessum hætti inn í þingið því að ríkisstjórnin ber skyldur gagnvart atvinnulífinu og heimilunum í landinu, henni ber að koma þeim til aðstoðar. Það er ekki stjórnarskráin sem á að vera í algjörum forgangi, það var ekki (Forseti hringir.) stjórnarskráin, frú forseti, sem olli bankahruninu.