141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Stjórnarskráin leggur okkur þingmönnum þær skyldur á herðar að breytingar sem á henni eru gerðar verði unnar hér í þessu húsi. Það er ekkert sem fríar okkur því og sú atkvæðagreiðsla sem fór fram á laugardaginn var ráðgefandi og getur með engum hætti verið bindandi fyrir Alþingi. Það er þó sjálfsagt og eðlilegt, eins og hefur komið hér fram, að á þessa niðurstöðu sé hlustað, bæði á þá sem mættu á kjörstað og greiddu atkvæði með, á þá sem greiddu atkvæði á móti og líka á þá sem ákváðu að sitja heima. Þannig hlustum við á þjóðina alla. (Gripið fram í.)

Það er mikið verkefni fram undan hjá okkur hv. þingmönnum. Stjórnlagaráðið hafði skamman tíma til að vinna tillögur sínar, fjóra mánuði, (Gripið fram í.) og það var Alþingi sem ákvað að sá tími yrði til ráðstöfunar. Á þeim tíma lagði stjórnlagaráðið fram 35 nýjar greinar í stjórnarskrá, eina nýja grein í stjórnarskrá á innan við fjögurra daga fresti í þessa 120 daga. Öðrum greinum núverandi stjórnarskrár var breytt meira eða minna. Augljóst er að á svona skömmum tíma, frammi fyrir svona stóru verkefni, er hætta á því að inn komi hugmyndir sem eru ekki nægilega skýrar, hugtök sem eru ekki nægilega skýr og það myndist lögfræðilegur vafi. Þetta snýst einmitt um vissuna, um grunninn og réttaröryggi borgaranna. Þetta snýst um að borgararnir geti þegar á reynir leitað réttar síns á grundvelli sameiginlegrar stjórnarskrár, stjórnarskrár allra landsmanna.

Sú vinna, virðulegi forseti, er mikilvæg af hálfu okkar alþingismanna, að vinna okkur nú í gegnum þessar tillögur, aðrar þær tillögur sem fram hafa komið og tillögur þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi til að tryggja að það verði endurskoðun á stjórnarskránni (Forseti hringir.) þannig að öryggi borgaranna verði ekki stefnt í hættu.