141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Á laugardaginn greiddi þjóðin atkvæði um stjórnarskrá og tillögur stjórnlagaráðs um það mikilvæga grundvallarplagg sem stjórnarskráin er. Það er komin niðurstaða úr þeirri atkvæðagreiðslu. Nú verða menn, hvar í flokki sem þeir standa á Alþingi, að setjast yfir þetta mál og ígrunda það og vonandi verður það starf sem við munum vinna hér í framhaldinu eftir þessar tillögur Alþingi til sóma. Við þurfum að fara í þessa vinnu af mikilli yfirvegun og ég hafna því algjörlega að menn fari fram með einhverju áhlaupi og legg heldur til að ráðist verði í þessa grundvallarvinnu af yfirvegun.

Ég hef áhyggjur af því að um leið og menn telja og segja að mestallur tími þingsins eigi að fara í þetta eina mál, og dreg ég ekki úr því að við eigum að einbeita okkur að því, finnst mér fara lítið fyrir tillögum frá ríkisstjórninni er snerta atvinnumál þjóðarinnar, skuldamál heimilanna, minnkandi vægi verðtryggingar og verðtryggðra lána í þessu samfélagi. Öll þessi þrjú mál höfum við framsóknarmenn lagt fram á þessu hausti.

Ég hvet ríkisstjórnina til þess og stuðningsmenn hennar að einbeita sér líka að þeim almannahagsmunum sem eru fólgnir í því að koma atvinnulífinu af stað að nýju, koma með tillögur sem draga úr vægi verðtryggingar í samfélaginu ásamt því að við þurfum að halda áfram að koma til móts við skuldug heimili í landinu. Við getum ekki lokað augunum fyrir því að á undangengnum árum hefur fólk verið að flytja úr landi, það er mjög erfið staða hjá mörgum Íslendingum í dag og breytingar á stjórnarskránni munu ekki greiða veg þeirra til enda hvað þessi mál varðar.

Hvatning mín, um leið og við eigum að fara með yfirveguðum hætti yfir breytingar á stjórnarskránni, er sú að menn snúi sér líka að hinum mikilvægu málum sem eru skuldavandi heimilanna og fyrirtækjanna, atvinnumál þjóðarinnar og verðtrygging (Forseti hringir.) sem við horfum upp á um hver mánaðamót að hækkar verðtryggð lán heimilanna. Við þurfum að fara að gera eitthvað í þessum mikilvægu málum.