141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði aðeins að halda áfram með það sem ég var að ræða hér áðan um þessa þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég ætlaði að bæta við að ég er sammála því sem kom fram hjá hv. þm. Merði Árnasyni um að við þurfum að skýra ákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareign, eins og það er kallað. Ég er hins vegar ekki sammála því orðavali sem er notað í tillögum stjórnlagaráðs, ég er ekki sammála því hvernig stjórnlagaráðið nálgast þetta, en ég held að við verðum að kveða skýrar upp úr með hvaða auðlindir það eru sem eiga að vera í þjóðareign og hverjar ekki.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur kallað eftir því að auðlindir yrðu skilgreindar. Hún hefur meðal annars lagt fram um það þingsályktunartillögu, ef ég man rétt.

Af því að þingmenn eru hér að túlka niðurstöður einstakra spurninga, ef ég hef skilið ræður þeirra rétt, vil ég líka segja að þegar spurt er hvort einhver vilji aukið persónukjör er mjög auðvelt að svara því játandi. Ég leyfi mér þó að fullyrða að ef í því felst til dæmis að fækka eigi þingmönnum landsbyggðarinnar og draga úr vægi hennar, eins og mér sýnist því miður allt of margir þingmenn hugsa og tala, hefði það verið kolfellt í öllum landsbyggðarkjördæmunum.

Það er allt of mikið opið sem enn á eftir að velta fyrir sér í þessum spurningum öllum saman.

Svo vil ég taka undir það sem fram kom hjá hv. þingmönnum Vigdísi Hauksdóttur og Birki Jóni Jónssyni, auðvitað eigum við að horfa á það sem mestu máli skiptir í dag, stöðu heimilanna að sjálfsögðu og þeirra sem eru án atvinnu á Íslandi í dag sem og stöðu fyrirtækjanna. Við þurfum að einbeita okkur að því að laga samfélagið þannig að fyrirtækin geti bætt við fólki, fjölgað störfum. Þannig byggjum við upp Ísland, við byggjum ekki upp Ísland með því að einbeita okkur að hlutum sem koma í raun ekkert við uppbyggingu og endurreisn eftir hrunið. Þess vegna eigum við að venda okkar kvæði í kross og fara að fjalla um þau þingmál (Forseti hringir.) sem hafa verið lögð fram og miða að þessu. Þar eru fjölmörg mál frá þingmönnum Framsóknarflokksins efst á baugi.