141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:08]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Þjóðaratkvæðagreiðslan um síðustu helgi var söguleg og hún markar mikilvæg þáttaskil í því lýðræðislega mótunarferli nýrrar íslenskrar stjórnarskrár sem Alþingi Íslendinga samþykkti að hefja á vormánuðum 2010. Um helmingur allra kosningarbærra Íslendinga hefur nú með beinum hætti lýst afstöðu sinni til framhalds málsins og einstakra mikilvægra efnisatriða stjórnarskrárinnar og skilaboð þjóðarinnar eru afar skýr. Þjóðin vill að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. (Gripið fram í: Það er rangt.) Um tveir þriðju kjósenda styðja þannig hið lýðræðislega ferli sem hér hefur verið í gangi og vill að Alþingi nýti afrakstur þess við lokafrágang nýrrar stjórnarskrár.

Þjóðin styður einnig með afgerandi hætti að þjóðareign á auðlindum verði tryggð í stjórnarskrá, mál sem margra áratuga deilur hafa staðið um hér á Alþingi. Hið sama má segja um að persónukjör verði aukið, atkvæðavægi jafnað og að tiltekið hlutfall kosningarbærra einstaklinga geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslna um einstök mál.

En þjóðin vill einnig sjá breytingar á fyrirliggjandi tillögum. Rúmur helmingur kjósenda vill að ákvæði um þjóðkirkju verði í nýrri stjórnarskrá, ólíkt því sem gert er ráð fyrir í tillögum stjórnlagaráðs og kallar þannig eftir efnislegum breytingum í því efni.

Þessar afdráttarlausu niðurstöður eru afar þýðingarmikið veganesti fyrir okkur alþingismenn. Þær ber allar að taka mjög alvarlega og eftir þeim ber okkur að vinna. Nú er það í okkar höndum að ljúka verkinu í samræmi við skýran vilja þjóðarinnar og færa henni nýja stjórnarskrá fyrir næstu kosningar. Þessi niðurstaða þjóðarinnar er fengin í einu lýðræðislegasta mótunarferli sem nokkurn tímann hefur verið reynt í öllum tilraunum til að breyta stjórnarskránni frá lýðveldisstofnun. Trúverðugleiki Alþingis er í húfi ef ekki verður brugðist rétt við þessum skýra vilja þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Þjóðinni hefur nú tekist það sem þingheimi hefur mistekist allt frá lýðveldisstofnun, að móta Íslandi nýja stjórnarskrá í stað þeirrar sem samþykkt var við lýðveldisstofnun til bráðabirgða. Íslenska þjóðin má vera afar stolt af þessu afreki og fyrir það ber okkur hér á Alþingi að vera þakklát. En nú hefur þjóðin skilað sínu verki á borð okkar þingmanna og nú er það okkar að ljúka því með sóma. Ég trúi ekki öðru og get raunar ekki annað heyrt en að fulltrúar allra flokka á Alþingi séu reiðubúnir að axla þá ábyrgð sem nú hvílir á okkar herðum í þessum efnum og einhenda sér í þá vinnu sem fram undan er, að ljúka verkinu.

Mikilvægt er að forustumenn allra flokka á Alþingi ræði þetta, m.a. til að freista þess að ná samkomulagi um vinnulag og tímaramma fyrir umræður. Eðlilegt fyrsta skref ætti að vera að ljúka 1. umr. um frumvarp að nýrri stjórnarskrá fyrir jól, afgreiða það til nefndar og ljúka síðan endanlegri afgreiðslu fyrir þinglok í vor. Nú þurfa flokkadrættir og klækir stjórnmálanna að víkja fyrir almannahag og fumlausum vinnubrögðum allt til enda. Til þess höfum við allar forsendur að mínu mati, bæði í ljósi skýrrar leiðsagnar þjóðarinnar og einnig vegna þess vandaða undirbúnings sem þegar hefur farið fram og er enn í fullum gangi.

Þannig fól stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hópi sérfræðinga að undirbúa frumvarp til nýrrar stjórnarskrár til framlagningar strax í fyrravor og hefur sá hópur verið að störfum síðan. Var sérfræðingunum falið að skoða og fara lagatæknilega yfir tillögur stjórnlagaráðs og skoða þær meðal annars með tilliti til mannréttindasáttmála sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að fara eftir, innra samræmis og mögulegra mótsagna, réttarverndar miðað við gildandi stjórnarskrá og greinargerð með tillögum og málsóknamöguleika gegn ríkinu.

Þannig geta komið fram bæði tæknilegar og efnislegar breytingar á tillögum stjórnlagaráðs, en stjórnlagaráð opnaði sjálft fyrir svigrúm til breytinga eftir aukafund ráðsins í vor, m.a. að Alþingi hækkaði þröskuldinn vegna þjóðaratkvæðagreiðslna. Yfir þessi atriði öll þurfum við að fara og kappkosta að sem víðtækust sátt verði um útkomuna, bæði innan þings og utan. Sátt er mikilvæg og að henni ber okkur að vinna en þó verður ávallt að gæta þess að mikilvægum grundvallaratriðum í heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar verði ekki fórnað. Tillaga stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá verður alltaf að vera grundvöllur vinnunnar. Um það hefur þjóðin kveðið upp sinn dóm. Ákvæðum þar ætti því ekki að breyta efnislega nema til þess stæðu mjög sterk og efnisleg rök.

Hæstv. forseti. Á næsta ári verða liðin 139 ár frá því að Kristján IX. færði Íslendingum sína fyrstu stjórnarskrá, stjórnarskrá sem við lýðveldisstofnun var samþykkt lítt breytt með heitstrengingum stjórnmálamanna þess tíma um að hún skyldi tekin til heildstæðrar endurskoðunar hið fyrsta. Fram til þessa hafa allar slíkar tilraunir þingheims mistekist þótt sannarlega hafi einstaka breytingar náð í gegn, stundum í fullri sátt en einnig í miklum ágreiningi. Fyrst nú, tæpum 69 árum eftir gildistöku lýðveldisstjórnarskrárinnar, hillir undir að loforðið um nýja íslenska stjórnarskrá verði loksins efnt.

Þjóðin hefur nú fært Alþingi tillögu að nýrri íslenskri stjórnarskrá, líkt og Jón Sigurðsson og fylgismenn hans gerðu á þjóðfundinum í Lærða skólanum fyrir ríflega 160 árum. Tillaga þjóðarinnar er samin af lýðræðislega kjörnum fulltrúum hennar og studd tveimur af hverjum þremur kjósendum í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem tæplega helmingur þjóðarinnar tók þátt, talsvert fleiri en þegar 44% atkvæðisbærra Íslendinga samþykktu sambandslagasamninginn 1918 sem fullveldi Íslands er grundvallað á. Þeirri niðurstöðu fögnum við æ síðan þann 1. desember ár hvert.

Það er hálft ár til kosninga og nú er það skylda okkar alþingismanna að standa þannig að málum að í þeim kosningum geti þjóðin kveðið upp sinn endanlega dóm um nýja fullbúna stjórnarskrá sem sitjandi þing hefur samþykkt fyrir sitt leyti. Um það verkefni eigum við að sameinast, hvar í flokki sem við stöndum, og kappkosta að ná sem breiðastri samstöðu innan þings sem utan. Takist okkur ætlunarverkið gæti ný stjórnarskrá hæglega tekið gildi strax á næsta ári, t.d. á þjóðhátíðardaginn 17. júní, líkt og gildandi stjórnarskrá gerði fyrir 69 árum.

Standist þingið þessa prófraun spái ég því að það muni reynast einn mikilvægasti áfangi okkar í að endurreisa traust þjóðarinnar á þessari merku stofnun eftir ágjöf undangenginna ára.