141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er á vissan hátt svolítið skrýtið að hlusta á forustumenn ríkisstjórnarinnar þegar þeir flytja framsöguræður sínar eftir þessar kosningar. Látið er líta út fyrir að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi ekki viljað breyta nokkrum hlut í stjórnarskránni. Það er einfaldlega rangt, frú forseti, þingmenn Framsóknarflokksins hafa ætíð talað á þann veg í þessu máli að breyta þurfi stjórnarskránni að nokkru leyti, en við höfum ekki verið talsmenn þess að skrifa nýja.

Ég segi í tilefni dagsins í dag: Loksins eru þessi málefni komin á dagskrá þingsins. Ég hef kallað mjög eftir því að þingið fái þetta mál til sín, það er jú þingsins að taka ákvörðun um það hvernig stjórnarskránni er breytt.

Hér er verið að tala um að fram hafi farið lýðræðislegt ferli og þetta hafi allt verið fallegt og gott, sú grýtta leið sem farin hefur verið í þessu stjórnlagaráðsmáli. Ég minni á að nú þegar hafa farið í þetta 1.300 milljónir. Ríkisstjórnin fékk á sig hæstaréttardóm á sínum tíma þegar stjórnlagaþingskosningarnar voru dæmdar ógildar og lengi má telja. Vissulega hlýtur sú ríkisstjórn sem nú situr, sem hefur fengið á sig hæstaréttardóma sjálf, að líta á það sem gott og lýðræðislegt ferli, en siðgæðið er hærra hjá landsmönnum. Ég ber virðingu fyrir því sem stendur í stjórnarskránni um að þrígreiningu ríkisvaldsins beri að virða, sér í lagi hvað það varðar að framkvæmdarvaldið verði að fara að niðurstöðum dómstóla, þó ekki væri annað. Hvers á sú þjóð að vænta ef ríkisstjórnin fer ekki að settum lögum og að dómum Hæstaréttar sé hún dæmd? Við höfum nýlegt dæmi frá síðustu viku varðandi gengislánadóminn.

Úr því þetta ferli er komið af stað hér í þinginu, og því ber að fagna, er ég raunverulega steinhissa á því að lagafrumvarpið, sem á að vera grunnur að þeim úrslitum sem réðust um helgina, skuli ekki liggja fyrir. Hvers vegna hefur ríkisstjórnin ekki lagt fram skýrslu stjórnlagaráðs sem frumvarp fyrst ríkisstjórnin ætlar að nota það sem grunn í þessari vinnu? Ég er alveg steinhissa á því. Frá og með deginum í gær er Alþingi enn að tapa tíma í þessu mikilvæga máli fyrst þetta er ekki lagt fram hér í þinginu strax.

Nei, það á að bíða eftir sérfræðingunum, hvaða breytingar þeir ætla að gera á því sem kom frá stjórnlagaráði. Það skal upplýst hér, frú forseti, að nú þegar hefur verið viðurkennt að sú greinargerð sem stjórnlagaráð skilaði með tillögum sínum er ekki brúkleg. Fékk ég yfir mig miklar skammir á sínum tíma þegar ég benti á þá augljósu staðreynd, en nú eru þessir sérfræðingar að skrifa nánast nýja greinargerð með þeim tillögum sem stjórnlagaráð skilaði.

Þetta leiðir líka hugann að muninum á ráðgefandi og bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem fór fram um liðna helgi var ráðgefandi eins og flestir vita og eru þingmenn á engan hátt búnir að binda hendur sínar hvað varðar úrslit hennar. Eins og segir í 48. gr. stjórnarskrárinnar sem er í gildi, með leyfi forseta:

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Ég vil að það komi fram í þessum umræðum að þingmenn eru ekki bundnir af þessari atkvæðagreiðslu.

Það leiðir líka hugann að því að úti í samfélaginu eru aðilar sem eru andvígir stjórnvöldum. Ég tek sem dæmi þjóðaratkvæðagreiðsluna um þessi stjórnarskrárdrög, ég tek sem dæmi ESB-umsóknina. Nei-fólkið hefur sína fulltrúa á þingi. Þingmenn mega ekki detta í þá gryfju að verða svo meðvirkir að þeir fari að fara eftir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslum þvert á sannfæringu sína. Þetta vil ég að fólk hafi í huga.

Hins vegar er það bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla eins og við fórum í gegnum í tvígang varðandi Icesave. Þar tók forsetinn sig til og vísaði málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu en ákvæði í stjórnarskránni, 26. gr., snýr að því að honum er það heimilt og þá verður atkvæðagreiðslan bindandi.

Við skulum rifja upp aðdragandann að því. Forustumenn ríkisstjórnarflokkanna hvöttu fólk til að sitja heima, fara ekki á kjörstað og greiða atkvæði. Ríkisstjórnarflokkarnir töpuðu báðum þjóðaratkvæðagreiðslunum sem þó voru bindandi. Ef litið er til 11. gr. um forseta Íslands þar sem er ákvæði um það að ef þingið sjálft lýsir yfir vantrausti á forseta Íslands þurfi 3/4 hluta þingmanna að samþykkja þannig tillögu og þá skuli málið fara skilyrðislaust í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Tapi þingið kosningunni ber samkvæmt stjórnarskránni að boða tafarlaust til kosninga. Hvað gerði ríkisstjórnin þegar hún var búin að tapa bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu í tvígang? Virðulegi forseti, hún sat áfram og boðaði ekki til kosninga. Þannig er tvískinnungurinn hjá þeirri ríkisstjórn sem nú starfar, það er hreint með ólíkindum að þessi spuni skuli vera keyrður.

Við skulum líka aðeins fara yfir það hvað telst góð kosningaþátttaka. Hæstv. núverandi atvinnumálaráðherra taldi 70% kjörsókn í forsetakosningunum afar dræma — afar dræm kosningaþátttaka. Þrátt fyrir það fékk sitjandi forseti yfir 50% atkvæða í þeim kosningum. Nú telja forustumenn ríkisstjórnarflokkanna að tæplega 50% kosningaþátttaka í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sé afar góð — afar góð. Þarna er eitthvað mikið á ferðinni fyrst hægt er að tala í báðar áttir með nokkurra mánaða millibili.

Eins og ég hef sagt hefur Framsóknarflokkurinn alltaf verið tilbúinn til að koma að vinnu sem lýtur að breytingum á stjórnarskránni, þeim ákvæðum sem þarf að breyta. Það er því afar merkilegt að lesa það sem kemur fram í fréttum í dag um misskilning milli ríkisstjórnarflokkanna og þeirra sem sátu í stjórnlagaráði. Haft er eftir Þorvaldi Gylfasyni, sem hlaut flest atkvæði í kosningunum sem voru svo dæmdar ógildar, að ekki megi gera neinar efnislegar breytingar á því plaggi sem frá stjórnlagaráði kom. Hér hefur hæstv. forsætisráðherra boðað bæði tæknilegar, lagalegar og efnislegar breytingar, þannig að nú er stjórnlagaráðið sjálft komið upp á kant við ríkisstjórnina.

Virðulegi forseti. Sem þingmaður Framsóknarflokksins heiti ég stuðningi okkar framsóknarmanna við breytingar á stjórnarskránni. Þær eru oft og tíðum nauðsynlegar. Þær verða að vera vitrænar og við tökum þátt í breytingaferlinu með miklum vilja og jákvæðni. En við látum ekki draga okkur út í skurð, út í einhverja vitleysu. Ég skora því á ríkisstjórnina að vinna málið í friði en ekki ófriði.