141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:35]
Horfa

Jón Kr. Arnarson (Hr):

Virðulegi forseti. Ljóst er að þjóðin hefur tekið undir þau sjónarmið að á þeim tímamótum sem við stöndum í dag sé rétt að gera nýja stjórnarskrá, að hið nýja Ísland þurfi nýja stjórnarskrá. Kosningar á laugardag fóru vel fram og kjörsókn var í raun ágæt og miklu betri en í samsvarandi kosningum í öðrum löndum. Þá voru niðurstöðurnar einnig skýrar. Þjóðin vill að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Í þessu sambandi langar mig að vitna í ágæta ræðu hæstv. forsætisráðherra á Alþingi frá því í síðustu viku, með leyfi forseta:

„Heildstæðar tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá fyrir íslenska þjóð, sem samþykktar voru einróma af ráðinu, vekja vonir um nýtt og betra lýðveldi, lýðveldi sem markast af djúpri virðingu fyrir mannréttindum, fyrir náttúru og lífríki landsins, lýðveldi þar sem almannahagsmunir eru settir ofar einkahagsmunum, og auðlindir lands og sjávar sem ekki eru í einkaeigu eru lýstar þjóðareign, lýðveldi þar sem fólkið sjálft getur haft raunveruleg áhrif á málefni líðandi stundar, lýðveldi þar sem leikreglur lýðræðisins og hlutverk ólíkra handhafa ríkisvalds er skýrt afmarkað.“

Virðulegi forseti. Hver er staðan nú að loknum þessum kosningum? Þingið hefur fengið það hlutverk að fjalla efnislega um heildstæðar tillögur stjórnlagaráðs, kalla til helstu sérfræðinga og fara vandlega yfir málið. Mikilvægt er að afgreiðsla málsins verði skipuleg frá upphafi til enda með afmörkuðum en ríflegum ræðutíma. Ganga þarf skipulega til verka og vanda vinnubrögð.

Niðurstaðan er skýr við fyrstu spurningunni, að tillögur stjórnlagaráðs skuli leggja til grundvallar. Slíkt þýðir auðvitað ekki að einstakar tillögur ráðsins geti ekki tekið efnislegum breytingum í meðförum þingsins. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir og hefur komið skýrt fram í umræðum á Alþingi og er tekið fram í kynningarbæklingi Alþingis sem dreift var á heimili landsins. Hins vegar er mikilvægt að Alþingi taki sem mest tillit til þessara heildstæðu tillagna. Að mín viti ætti ekki að ráðast í grundvallarbreytingar á því plaggi því að slíkt væri í raun í andstöðu við vilja kjósenda.

Í kosningunum á laugardag var einnig leitað álits á einstökum afmörkuðum þáttum stjórnarskrármálsins. Þar eru niðurstöðurnar líka nokkuð skýrar og ber Alþingi auðvitað að virða þær. Þjóðin vill að náttúruauðlindir verði í þjóðareigu. Þjóðin vill að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju. Svarið við þeirri spurningu var reyndar minnst afgerandi og er niðurstaðan ekki í anda tillagna stjórnlagaráðs, engu að síður er niðurstaðan skýr. Þjóðin vill að persónukjör í kosningum til Alþingis verði heimilað í meira mæli en nú er og þjóðin vill að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt. Þá vill þjóðin að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mig langar að staldra aðeins við hið síðastnefnda. Í tillögum stjórnlagaráðs, 67. gr., eru ákveðnar takmarkanir á því hvaða mál geti farið í þjóðaratkvæðagreiðslu en í kosningum á laugardag var ekki minnst á slíkar takmarkanir. Í tillögum stjórnlagaráðs er sagt að fjármálaleg málefni og þjóðréttarskuldbindingar séu undantekningar á þeirri reglu að krefjast megi þjóðaratkvæðagreiðslu. Að mínu viti er þetta galli á tillögum stjórnlagaráðs og er miður að þessum álitaefnum skyldi ekki vera svarað skýrt á laugardag. Ég vil þó leyfa mér að túlka það svo að niðurstaða kosninganna gangi að sumu leyti gegn tillögum stjórnlagaráðs í þessu efni því að í þeirri spurningu sem lögð var fyrir kjósendur og kjósendur svöruðu játandi voru engar slíkar takmarkanir. Ég bið hv. þingmenn að gæta að þessu í meðförum málsins.

Þá er það niðurstaða atkvæðagreiðslunnar að ákveðið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér finnst spurningin í þjóðaratkvæðagreiðslunni nokkuð einkennilega orðuð því að í tillögum stjórnlagaráðs, í 65. gr., er klárlega gert ráð fyrir að tíundi hluti kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér finnst því mikilvægt að þeirri tölu sé haldið til haga, ekki síst ef krefjast á undirskrifta á blaði.

Virðulegi forseti. Við stöndum á tímamótum. Í vetur brenna mörg mikilvæg mál á þinginu og mikið liggur við að unnið verði hratt og skipulega og samstaða ríki um framgang mála. Eitt þessara mála er hin nýja stjórnarskrá og vonandi gengur sú vinna vel svo að við sjáum sem fyrst nýja stjórnarskrá sem Alþingi hefur unnið í samráði og samræðu við almenning í landinu.

Auðvitað brenna mörg önnur mikilvæg mál á þinginu og stjórnarskrármálið má ekki taka allan tíma og athygli þingsins frá slíkum málum. Enn á eftir að finna viðunandi lausnir á skuldum heimila og fyrirtækja og enn hangir snjóhengjan svokallaða yfir okkur, svo að dæmi séu tekin. Allt of stór hópur fólks hefur farið illa út úr hruninu og afleiðingum þess er misjafnlega deilt niður á landsmenn. Harkalegur niðurskurður hefur haft þær afleiðingar að það hriktir í stoðum velferðarkerfisins. Öll þessi mál eru mikilvæg og ábyrgð þingsins því mikil að öðlast traust þjóðarinnar og leysa þessi brýnu verkefni. Því þarf þingið að vinna skipulega, virðulegi forseti, sem aldrei fyrr þannig að ný stjórnarskrá geti litið dagsins ljós og verið borin undir kjósendur samfara alþingiskosningum í vor.