141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og skýrt hefur komið fram í þessari umræðu þá erum við eins og staðan er í dag í ákveðnu millibilsástandi, í miðju ferli þessa máls. Næstu skref verða eins og hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gerði grein fyrir hér áðan að sérfræðingahópur, sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ákvað að fá til þessa verks í júníbyrjun, mun skila af sér innan fárra vikna og í kjölfar þess mun frumvarp sem byggir á þeirri vinnu væntanlega verða lagt fyrir þingið. Þangað til það liggur fyrir er svolítið erfitt að tala um efnisatriðin í smáatriðum.

Við vitum um megindrættina eins og fram hefur komið og við vitum að það verða breytingar á þeim tillögum sem frá stjórnlagaráði komu síðasta sumar. Við vitum ekki nákvæmlega hvaða breytingar það verða eða hvernig þær verða eða hversu mörgum greinum verður breytt eða hversu mikið þeim verður breytt. Við vitum það ekki enn þá. Við erum því ekki enn komin á þann stað að geta byrjað að tala um málið út frá þeim forsendum.

Ég vildi við þetta tækifæri nefna, því að hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vísaði til fundar okkar með Páli Þórhallssyni lögfræðingi í morgun, sem er talsmaður þess hóps sérfræðinga sem hefur unnið að þessu verki, að það er enn skoðun mín að það hafi verið mjög óheppilegt að tímapunktarnir í þessari vinnu voru með þeim hætti sem um ræðir, þ.e. að hin lögfræðilega skoðun og hin lögfræðilega vinna ætti sér stað á meðan og raunverulega eftir að gengið var til atkvæða þar sem þjóðin var boðuð til atkvæðagreiðslu síðastliðinn laugardag. Ég er þeirrar skoðunar að þegar boðað er til atkvæðagreiðslu með þátttöku alls almennings sé eðlilegt að það sé gert þegar fullbúið plagg liggur fyrir, þegar fullbúinn texti liggur fyrir. Nú er út af fyrir sig orðið of seint að ræða það. Ég vildi bara geta þess í ljósi þess að það hefur auðvitað áhrif á hvernig túlka ber þessa niðurstöðu.

Við heyrum að það eru mismunandi túlkanir í gangi á því hversu mikið svigrúm sé fyrir þingið til að breyta því sem frá stjórnlagaráði kom á sínum tíma. Ég heyri að svigrúmið er mismunandi miðað við það hver talar. Ég veiti því athygli og fagna því í sjálfu sér að bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. atvinnumálaráðherra, formenn stjórnarflokkanna á þingi, gefa í orðum sínum svigrúm til efnislegra breytinga ef þær eru vel rökstuddar. Ég fagna því. Það finnst mér mjög gott vegna þess að það kunna að vera tilefni til þess og það kann að vera að rökstuðningur leiði til þess að meiri hluti þingsins telji ástæðu til að víkja efnislega frá einhverju sem frá stjórnlagaráði kom. Það getur vel verið. Ég er eiginlega sannfærður um að svo verður í einhverjum tilvikum en auðvitað vitum við ekki nákvæmlega hvernig það þróast. Ég fagna því að umræðan er þó á nótum en ekki þannig að tillögur stjórnlagaráðs séu „absalútt“ eins og þær liggja fyrir upp á punkt og prik til afgreiðslu á þingi eða til einhvers konar afgreiðslu án efnislegrar umfjöllunar.

Efnisleg umfjöllun af hálfu þingsins er mjög mikilvæg. Það á eftir að kanna ýmsa hluti í þessu. Við vitum ekki enn hversu djúp skoðun þessa lögfræðingahóps verður. Takmörk hans eru auðvitað þau að hann fær forskrift frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um að skoða lagatæknilega þætti fyrst og fremst. Þá spyr maður: Að hve miklu leyti þarf, þegar sú vinna liggur fyrir, að fara út í að greina afleiðingar og áhrif þeirra breytinga sem felast í tillögum stjórnlagaráðs? Slíkt er auðvitað góð vinnuaðferð við hvaða lagasetningu sem er, ekki síst þegar um er að ræða stjórnarskrárbreytingar.