141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:51]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég er mjög sátt að aflokinni þjóðaratkvæðagreiðslu og er sérstaklega sátt við hversu afgerandi niðurstaðan var. Ég leyfi mér að túlka hana þannig að þjóðin styðji hið lýðræðislega ferli sem Alþingi hefur lagt upp með allt frá kosningunum 2009. Þjóðin styður þetta ferli, hún vill nýja stjórnarskrá, hún vill að það verði byggt á vinnu og frumvarpi stjórnlagaráðs með einni undantekningu þó sem er ákvæðið um þjóðkirkjuna.

Herra forseti. Vonandi bera alþingismenn nú gæfu til að ljúka gerð nýrrar stjórnarskrár fyrir vorið og leggja fyrir þjóðina fullbúinn texta, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi hér áðan, samhliða alþingiskosningunum næsta vor.

Herra forseti. Ég er mjög sátt við þátttökuna og er sátt við að tilraun Sjálfstæðisflokksins til að tala þjóðaratkvæðagreiðsluna niður mistókst herfilega því að 50% þátttaka í slíkum kosningum er í mínum huga mjög mikil. Við skulum bara líta til þess hvernig til hefur tekist þegar kosið er um sameiningu sveitarfélaga, en þá kjósa menn um það sem þeir hafa flestir mjög mikinn áhuga og þekkingu á og stendur þeim næst í samfélaginu. Þá er algengast að þátttakan sé í kringum 33% með gleðilegum undantekningum þó, m.a. núna um helgina á Álftanesi og í Garðabæ.

Herra forseti. Það er mikilvægt að virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar á laugardaginn og meta það við þann helming þjóðarinnar sem mætti á kjörstað að gefa Alþingi leiðsögn. Það er ekki síður mikilvægt að virða vilja þeirra sem ekki vildu taka þátt og létu þannig öðrum eftir að taka ákvörðun fyrir sig. Það er ekki við hæfi að slá eign sinni á skoðanir þess helmings kjósenda eða vilja þeirra í pólitískum tilgangi eins og hér hefur verið gert.

Íslendingar hafa nú gengið að kjörborðinu sex sinnum á þremur og hálfu ári og við siglum hraðbyri inn í nýtt samfélag sem einkennist af beinu, upplýstu lýðræði með þátttöku fjöldans. Síðasta spurningin í þjóðaratkvæðagreiðslunni var einmitt um afstöðu til þess og 73,3% sögðu já við því að tiltekinn fjöldi kjósenda ætti að geta kallað mál til þjóðaratkvæðis. Svörin voru afgerandi og við munum því væntanlega eiga von á miklu fleiri atkvæðagreiðslum af þessu tagi á næstu árum og því fagna ég sérstaklega.

Herra forseti. Skýrustu skilaboðin eru þó um eignarhald á náttúruauðlindum. Það er gleðiefni fyrir alla náttúruverndarsinna. Það eru mikilvæg og skýr skilaboð að 83% vilja setja ákvæði um þjóðareign á auðlindum í sjálfa stjórnarskrána. Þetta snýst ekki aðeins um fiskstofna og auðlindir hafsins, sem hefur verið deiluefni hér í áratugi, heldur snertir þetta líka vatnsaflið okkar og jarðvarmann því að mörgum brá þegar útlend eignarhaldsfélög voru komin á kaf í vatnsaflið og jarðvarmann fyrir nokkrum árum í gegnum HS Orku. Það hefur reynst erfitt að vinda ofan af því. Nýjasta dæmið var svo ásælnin í landið þar sem erlent stórfyrirtæki og jafnvel heilt stórveldi vill eignast Grímsstaði á Fjöllum. Niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardaginn er að mínu mati skýr skilaboð í því efni.