141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:59]
Horfa

Róbert Marshall (U):

Virðulegur forseti. Ég hitti mann um daginn. Það er maður á landi voru, í samfélagi okkar sem er sagður vera svo lunkinn í að koma sjálfum sér að sem aðalatriði hverrar sögu að hann orðar frásagnir með þessum hætti: Það hitti maður mig á dögunum. Þessi saga rifjast nú upp fyrir mér í þessum umræðum vegna viðbragða við tíðindum helgarinnar því að aðalatriði þeirrar kosningar sem fram fór á laugardaginn er ekki hver tapaði og hver vann. Engin stjórnmálahreyfing tapaði þessari kosningu og engin stjórnmálahreyfing vann hana. Hún er einfaldlega sigur fyrir þá sem tóku þátt í henni og líka fyrir þá sem ákváðu að gera það ekki. Þarna skiptist fólk á skoðunum og niðurstaðan liggur fyrir.

Niðurstaðan er: Við viljum nýja stjórnarskrá og þingið á að vinna hana á grundvelli ákveðinna tillagna sem liggja fyrir og á þeim tíma sem eftir lifir af þessu kjörtímabili. Það eru nokkrir mánuðir til stefnu, töluverð vinna hefur verið unnin og ég er sannfærður um að ef allir hér inni vanda sig við þá vinnu sem fram undan er og skoða efnislega það sem er á borðinu og hlusta á það sem við höfum fram að færa þá getum við klárað þetta mál. Við þurfum að gera það með þeim hætti að allir verði sáttir vegna þess að þetta er stjórnarskráin, þetta er ekki lagasetning sem hægt er að knýja fram með ofbeldi eða með meiri hluta eða í miklu ósætti. Þetta verður að vera þannig að allir nálgist í þeirri vinnu sem fram undan er.

Ég held því fram að við eigum að taka stjórnlagaráð okkur til fyrirmyndar í þessum efnum og ná (Forseti hringir.) sameiginlega niðurstöðu í málinu.