141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:10]
Horfa

Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þann 20. október sl. mætti þjóðin á kjörstað og sagði hug sinn þrátt fyrir að mikið hefði verið reynt að tala kosningarnar niður. Í upphafi voru þær raddir háværar sem sögðu að kosningarnar væru of flóknar og sumir töldu æskilegt að segja þjóðinni hvernig best væri að haga atkvæði sínu. En sem betur fer eru Íslendingar sjálfstætt þenkjandi fólk sem getur að sjálfsdáðum ákveðið hvort og hvernig það hagar atkvæði sínu.

Ég fagna því helst að þetta ferli allt frá hruni hefur valdið vakningu meðal íslensku þjóðarinnar. Við gerum okkur betur grein fyrir mikilvægi þess að taka þátt, að vera virk í umræðu og verki en láta ekki aðra segja okkur hvað við eigum að hugsa eða hreinlega að við séum ekki nógu fær eða hæf til að hafa skoðanir á málefnum líðandi stundar.

Niðurstöður þessarar atkvæðagreiðslu eru í flestum tilvikum skýr. Til dæmis vildu tæplega 88% þeirra sem kusu hafa ákvæði um að náttúruauðlindir væru í þjóðareign. Um 75% vildu ákvæði um að hægt væri að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu ef ákveðið hlutfall kosningabærra manna færi fram á það. Ef við ætlum að rengja þessar niðurstöður þá væri okkur hollast að hætta þessu lýðræðisbrasi — eða hvað? Nei, þegar öllu er á botninn hvolft þá viljum við lýðræði þrátt fyrir að vera ekki alltaf sammála meiri hlutanum, sama hversu fúlt það getur verið.

Það sem nú tekur við er að fullvinna þær breytingar sem þjóðin lagði til og þá má ekki kasta til hendinni. Við þurfum að bera tilhlýðilega virðingu fyrir stjórnarskránni og gefa okkur þann tíma sem til þarf.

Að lokum vil ég segja að það er ekki hægt að fara í endalausar vangaveltur um hvernig þeir sem ekki mættu á kjörstað hefðu hagað atkvæði sínu. Þá segi ég bara eins og skáld eitt: Ef að sé og ef að mundi / átján lappir á einum hundi.