141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á fundi Stjórnarskrárfélagsins fyrir viku talaði Guðrún Pétursdóttir sem var formaður stjórnlaganefndar. Hún vitnaði í þjóðhátíðarræðu afa síns, Ólafs Thors, árið 1962 þar sem hann lagði út af ljóði Hannesar Hafsteins, Þagnið dægurþras og rígur, að menn, með leyfi forseta, sagði Ólafur, láti aldrei góð mál gjalda málflytjendanna, heldur fagni því að mega ljá góðu máli lið, hvort heldur sem samherji eða andstæðingur er flytjandi þess.

Við erum ekki þangað komin, bætti Guðrún við, en ég sem hér stend skora á okkur að reyna að koma okkur á þann stað, byrjum á umræðunni um stjórnarskrána, sýnum henni þann sóma sem hún á skilið. Við þá sem þykja tillögurnar vondar segi ég: Tökum umræðuna, reynið ekki að eyðileggja málið. Notið ekki orðið sátt um að ekki eigi að taka mark á skýrum meiri hluta fólksins.