141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

lokafjárlög 2011.

271. mál
[15:27]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Um leið og ég þakka hæstv. ráðherra framsögu hennar býð ég hana velkomna til starfa í nýju embætti og óska eftir góðu samstarfi við hæstv. ráðherra við þau verkefni sem bíða okkar í fjárlaganefnd. Það er full ástæða til að óska þess að um gott samstarf verði að ræða því að breytingar í embætti fjármálaráðherra eru töluvert örar. Til dæmis má geta þess, forseti, að frá áramótum er núverandi hæstv. fjármálaráðherra hinn þriðji sem gegnir því embætti og á þessu kjörtímabili hefur fjárlaganefnd haft fjóra formenn. Breytingar eru því mjög örar í forustu þessara mála hjá okkur nú um stundir og ég er ekki viss um að það sé allt til bóta upp á festuna, þekkinguna og eftirfylgni mála sem nauðsynleg er á þeim tímum sem við lifum í fjármálum ríkisins.

Við sjáum þess ágætlega stað í því frumvarpi sem hér liggur fyrir að það er nokkur lausung í þeim tökum sem þurfa að vera á ríkisfjármálum. Við sjáum það til dæmis í þeirri einföldu staðreynd sem kemur fram í frumvarpinu á bls. 87 um umframgjöld eru 54,6 milljarðar kr. Það eru gjöld sem eru umfram fjárheimildir í samþykktum fjárlögum fyrir árið 2011 og samþykktum fjáraukalögum fyrir árið 2011, brúttóumframgjöldin eru 54,6 milljarðar kr. Þetta setur eðlilega mark sitt á afkomu ríkissjóðs, skuldsetningu og annað. Það er engum blöðum um það að fletta að mesta áhyggjuefnið í huga okkar sem sýslum með afkomu ríkissjóðs eru þær breytingar sem orðið hafa á skuldastöðu ríkissjóðs, ekki síst þegar haft er í huga að sú skuldaaukning á sér stað samhliða umtalsverðum skattahækkunum.

Það er full ástæða til að undirstrika að af þessari stöðu ber að hafa allnokkrar áhyggjur þar sem miklar viðsjár eru á erlendum mörkuðum fyrir framleiðsluvörur okkar. Það eru sömuleiðis miklar spekúlasjónir uppi innan lands um raunverulega stöðu íslensks efnahagslífs. Þetta ber að hafa í huga þegar við fjöllum um stöðu ríkissjóðs í tengslum við það frumvarp sem hér liggur fyrir um lokafjárlög ársins 2011, ekki síst í ljósi þess að þegar síðasta áfall dundi yfir okkur árið 2008 var ríkissjóðurinn svo til hallalaus. Í stöðunni eins og hún birtist nú má ríkissjóðurinn ekki við miklum áföllum öðruvísi en að illa fari og þar af leiðandi hlýtur ýmislegt varðandi skuldastöðuna og afkomu ríkissjóðsins að valda okkur áhyggjum sem fjöllum um þessi mál dagsdaglega í fjárlaganefnd.

Ýmsir þættir eru váboðar á lofti. Við eigum eftir að fá niðurstöðu út úr málaferlum vegna Icesave, við getum nefnt umræðu um fjárhagslega stöðu Íbúðalánasjóðs og sömuleiðis mætti ræða stöðuna á innlendum vinnumarkaði eða afköst íslensks efnahagslífs. Þetta er hinn ytri veruleiki sem við okkur blasir sem ég tel fulla ástæðu til að geta í tengslum við þær niðurstöður sem birtast hér vegna þess að við höfum af ýmsum ástæðum, sem ég kem raunar að á eftir, ekki fylgt þeirri lagasetningu sem Alþingi hefur sett um fjárlögin sjálf og síðan fjáraukalögin sem sett voru undir lok ársins 2011.

Því miður verð ég að segja að í raun bendir ekkert til þess að við munum greiða niður skuldir í allra næstu framtíð, þvert á móti, að óbreyttu og ef við höldum á málum eins og hér birtist munum við frekar bæta í og það er mjög erfitt að horfa framan í það. Við getum sett þetta í samhengi við ýmsa aðra þætti en ég ætla ekki að lengja mál mitt að því leyti til í þessari almennu umfjöllun heldur fara örlítið í frumvarpið sjálft og reyna að rýna það allnokkuð.

Eins og kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu liggur fyrir að afgangsheimildir sem nýttust til að brúa þennan umframakstur upp á 54,6 milljarða kr. voru 23,3 milljarðar þannig að nettóstaða í árslok var umframakstur eða umframeyðsla upp á 31,3 milljarða kr. Stærstu liðirnir í þessu eru nefndir í frumvarpinu og þeir eru aðallega þrír gjaldamegin. Það er í fyrsta lagi gjaldfærsla í ríkisreikningi á árinu 2011 vegna skuldbindinga og endurgjalds ríkissjóðs til Landsbankans vegna stofnfjárframlags og ábyrgða á innstæðum eftir yfirtökuna á Sparisjóði Keflavíkur. Þetta eru rúmir 20 milljarðar. Einnig er þar um að ræða 7,1 milljarð í niðurfærslu á eignarhlut í Byggðastofnun og 4,9 milljarðar eru færðir niður á eignarhlut ríkissjóðs í Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Þetta eru stærstu liðirnir.

Við þetta er nauðsynlegt að gera nokkrar athugasemdir, þó að ekki væri nema vegna þeirra skýringa sem eru gefnar í frumvarpinu á bls. 87 á því hvers vegna þessar þrjár stærðir, samtals rúmir 30 milljarðar, eru teknar inn í ríkisreikninginn sem kemur út um mitt ár 2012 en eru ekki teknar með í fjárlagagerð ársins 2011 og ekki heldur í gerð fjáraukalaga. Reynt er að skýra þetta á bls. 87 í frumvarpinu, en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ekki var gert ráð fyrir fjárheimildum á móti þessum útgjöldum í fjárlögum eða fjáraukalögum, enda erfitt að spá fyrir um þau þar sem um er að ræða gjaldfærslur í ríkisreikningi sem ráðast af ákvörðunum um forsendur reikningshaldslegs uppgjörs eftir að árið er liðið.“

Ég fullyrði að um stærstan hluta þeirrar fjárhæðar sem liggur undir, við skulum athuga að þetta eru rúmir 30 milljarðar, var algjörlega fyrirsjáanlegt í hvað stefndi. Það eru hreinar línur að ekkert nýtt ber til á árinu 2012 sem veldur því að afskrifa þurfi rúma 7 milljarða á Byggðastofnun og tæpa 5 milljarða í Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Það er heldur ekkert nýtt að það þurfi milljarðaútgjöld vegna greiðslu ríkissjóðs fyrir Sparisjóð Keflavíkur til Landsbankans.

Sem dæmi má nefna að í skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisábyrgðir og aðrar fjárhagslegar skuldbindingar, sem gerð var í janúar 2012, er greint frá því að ríkið stofnaði nýjan sparisjóð, Sparisjóð Keflavíkur til að taka yfir innstæðuskuldir og eignir og starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík. Sparisjóðurinn bar nafnið SpKef. Í mars á árinu 2011 ákvað FME að Landsbankinn tæki yfir rekstur og skuldbindingar SpKef og fyrirtækin tvö sameinuð. Þessi ákvörðun var tekin í samráði við fjármálaráðuneytið. Fjármálaráðuneytið og Bankasýslan höfðu þá komist að þeirri niðurstöðu að heppilegra væri að sameina sparisjóðinn Landsbankanum en að fjármagna hann sjálfstætt.

Þrátt fyrir að fyrir lægi það sjónarmið FME, sem byggt var á grundvelli matseigenda eða stjórnenda SpKef, að eigið fé þessa nýja sjóðs væri neikvætt um 11 milljarða og rúmlega 19 milljarða vantaði upp á að sparisjóðurinn fullnægði kröfum Fjármálaeftirlitsins um lágmark eigin fjár var þetta engu að síður gert. Gert var samkomulag milli ríkisins og Landsbankans um að ríkissjóður mundi leggja nýju stofnuninni til fé.

Þetta lá fyrir allan tímann og það liggur meira að segja fyrir í umsögn frá Ríkisendurskoðun í tengslum við fjáraukalög ársins 2011 að skilyrðislaust bæri að færa til gjalda í fjáraukalögin eða á fjárlögin að lágmarki 11,2 milljarða kr. vegna þessarar færslu.

Þetta er kannski ekki stóra málið í þessu, við getum rifist um það endalaust hvers vegna þetta var ekki gert. Stærri spurning er hins vegar sú að það lá fyrir að tapið vegna þessara viðskipta mundi lenda á ríkissjóði. Þess vegna er sú gjaldfærsla sem hér er rætt um talin fram. Spurningarnar sem við ættum að spyrja okkur í tengslum við þetta mál, vegna þess að draga má af því lærdóm víðar í rekstri ríkisins, eru hvaða kröfur ríkissjóðurinn gerir til samningagerðar í þessum efnum.

Hvernig má það vera að deilt sé um einhverja 16 milljarða stærð eftir að eignarhlutur hefur verið keyptur af ríkissjóði? Við hljótum að spyrja okkur hvers lags mistök hafi í raun verið gerð af hálfu þeirra sem um véluðu á þessum tíma í samningsgerðinni ef sveigjan eða opnunin í þeim samningum nemur um 16 milljörðum kr. Það er áleitin spurning og ég tel að við þurfum að átta okkur á því hvaða kröfur við gerum til þess þegar staðið er að svona samningum um fjárhagslega skuldbindingu ríkissjóðsins.

Þegar maður tekur þetta allt saman er rétt að minna á 13. gr. laga um Stjórnarráð Íslands og þá ábyrgð sem þar er lögð á herðar ráðherra hverju sinni um eftirlit með starfrækslu, fjárreiðum og eignum á vegum stjórnvalda sem heyra undir almennar stjórnunarheimildir hans.

Það er annað mál í þessu sem ég tel líka rétt að nefna sem lýtur að hallarekstri ríkisstofnana og þeirra stofnana sem hafa verulegan uppsafnaðan halla. Þessum vanda hafa menn ýtt á undan sér og það er í rauninni ekkert nýtt, þetta hefur verið gert í mörg ár. Við í fjárlaganefnd höfum meðal annars fengið ótal ábendingar frá Ríkisendurskoðun um þessi mál. Síðast fengum við mjög gott yfirlit í maí á þessu ári sem lýtur að framkvæmd fjárlaga frá janúar til mars 2012. Þar er meðal annars fjallað um rekstur stofnana í A-hluta og taldar upp þær stofnanir sem hafa verið með verulegan uppsafnaðan vanda.

Í tengslum við lokafjárlög núna er rétt að vekja athygli á því að það svigrúm sem þessar stofnanir og fleiri í ríkisrekstrinum hafa haft til að nýta geymdar fjárveitingar til að fjármagna starfsemi sína á næsta fjárlagaári er óðum að dragast saman. Það er alveg gefið að miklu þrengra verður um þær ríkisstofnanir sem hafa fjármagnað sig með þessum hætti en áður hefur verið. Til viðbótar bætist sá vandi sem felst í verulegum uppsöfnuðum hallarekstri og ekki hefur verið tekið á.

Það liggur fyrir að ráðuneytin hafa ýmsar leiðir til að taka á þessu en engu að síður gengur þetta þannig ár eftir ár að viðkomandi fagráðuneyti skjóta sér undan því að taka á vandanum. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að beita sér fyrir því að taka á vandanum og þessu verklagi verði hætt, snúið verði af þessari braut, einfaldlega vegna þess að gildandi lög og reglur leggja skýrt bann við því að ráðuneyti og þar með ráðherra samþykki rekstraráætlanir hjá einstökum stofnunum sem gera ráð fyrir því að þær haldi áfram hinum svokallaða uppsafnaða halla. Í regluverkinu er alls staðar gert ráð fyrir því að hann verði greiddur upp og ef við ætlum að fara öðruvísi með verðum við að taka á því, annaðhvort við fjárlagagerðina sjálfa eða með sameiginlegum hætti við lokafjárlagagerð ársins 2011.