141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

lokafjárlög 2011.

271. mál
[15:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kveðjurnar sem hann sendi mér. Mér þykir leitt að hafa valdið honum svona miklu hugarangri með tíðum breytingum í fjármálaráðuneytinu en svona er þetta þegar ungar konur í svona störfum ákveða að fara í barneignir.

Hv. þingmaður fór yfir skuldastöðu ríkissjóðs og hvernig hún hefði breyst á síðustu árum í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þó það nú væri. Hér blasti við okkur algjört hrun á árinu 2008. Það er rétt að þá var ríkissjóður algjörlega skuldlaus en hið sama var ekki hægt að segja um sveitarfélög, fyrirtækin í landinu eða heimilin í landinu á sama tíma.

Virðulegi forseti. Þegar við horfum á skuldastöðu ríkissjóðs hljótum við alltaf að þurfa að horfa á hana í samhengi við skuldir annarra í samfélaginu. Það er ekki hægt að guma af skuldlausum ríkissjóði ef skuldir annarra hafa hækkað jafndramatískt og þær gerðu á árunum fyrir hrun og ég nefndi áðan. Vissulega var ríkissjóður þá skuldlaus eða skuldlítill en hins vegar blasti við 216 milljarða gat í fjárlögum sem þessi ríkisstjórn hefur verið að berjast við að brúa allt kjörtímabilið með erfiðum ákvörðunum um skattahækkanir og niðurskurð. En það hefur svo sannarlega tekist og núna, þingmönnum vonandi til mikillar ánægju, sjáum við til lands með það að skuldasöfnunin geti stöðvast á næsta ári og á árinu 2014 erum við loksins komin með tekjur umfram skuldir samkvæmt áætlun og getum farið að greiða niður skuldir okkar.

Ég vona að við hv. þingmaður eigum eftir að vera hér á komandi árum og eiga gott samstarf til að tryggja að þessi áætlun megi halda.