141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

lokafjárlög 2011.

271. mál
[15:44]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Ég hef engar meiningar um það af hvaða ástæðum þessi tíðu ráðherraskipti eru, það er fullkomlega eðlilegt að fólk taki sér barneignarfrí. Það sem ég vek athygli á er ákveðin lausung í öllu utanumhaldi um fjármál ríkisins, m.a. í ljósi tíðra mannaskipta í stöðum þeirra sem eru í forustu fyrir þá vinnu, hvort heldur er hjá framkvæmdarvaldinu í ráðuneytinu eða í forustu fyrir fjárlaganefnd. Ég veit ekki til þess að neinn í fjárlaganefnd hafi farið í barneignarfrí, svo að því sé haldið til haga.

Varðandi skuldsetninguna er rétt að vitna til orða hæstv. ráðherra sjálfs í umræðu nýverið á Alþingi um fyrirgreiðslu ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins. Við erum sammála um að ríkissjóður var sem betur fer skuldlaus þegar hrunið átti sér stað en hæstv. ráðherra hefur sjálf sagt í umræðu að einungis 28% af heildarskuldum vegna endurreisnarinnar stafi af bankahruninu. Það þýðir að 72% eru til komin af öðrum ástæðum.

Það sem ég bendi á er að þrátt fyrir þetta hefur verið að safnast í skuldir ríkisins. Ég benti einnig á í ræðu minni að ef haldið verður utan um fjárlagaheimildir með sama hætti á árinu 2012 og 2013, eins og gert var á árinu 2011 og lokafjárlagafrumvarpið leiðir í ljós, er ekki hægt að tala um að þessi skuldasöfnun stöðvist. Það er svo langur vegur frá. Það kemur fram í lokafjárlögunum sjálfum að það er farið fram úr afgreiddum útgjöldum sem nemur 54 milljörðum. Ef við höfum slík lausatök áfram í ríkissjóðnum erum við langan veg frá því að geta talað um skuldlausa fjárlagagerð á árinu 2013 og 2014, því miður.