141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

ætlað samþykki við líffæragjafir.

28. mál
[17:08]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um ætlað samþykki við líffæragjöf. Eins og hv. 1. flutningsmaður Siv Friðleifsdóttir hefur farið yfir er þetta tillaga til breytinga frá því sem nú er. Í dag er gert ráð fyrir ætlaðri neitun en við flutningsmenn leggjum til að gert sé ráð fyrir ætluðu samþykki.

Hér hefur verið rætt, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði, að hugsanlega ætti að vera möguleiki á skattskýrslu einstaklinga þar sem þeir geti játað því eða neitað að heimila að líffæri þeirra séu nýtt að þeim látnum ef út í það er farið. Ég held að það hljóti að koma fram í því frumvarpi sem væntanlega mun verða samið, verði þessi tillaga samþykkt, hvernig við gerum ráð fyrir ætluðu samþykki. Það er í mínum huga algjörlega ljóst, frú forseti, að ef þessi tillaga verður samþykkt og samið frumvarp til laga um þetta sem síðan fer til umræðu og verður samþykkt, þarf að búa til gagnagrunn sem verður aðgengilegur heilbrigðisfólki. Þar verði sýnilegt hvort hinn látni sé samþykkur því að líffæri hans, séu þau gagnleg og nýtileg, séu notuð eða ekki. Við setjum hér jafnframt þann varnagla að þyki fjölskyldu hins látna þetta óásættanleg niðurstaða, þrátt fyrir vilyrði hins látna, geti hún neitað. Ég held að vart sé hægt að ganga lengra í að virða rétt fólks en með því að áætla samþykki þess, hafa það í gagnagrunni en gera jafnframt ráð fyrir þeim möguleika að ganga gegn samþykki einstaklingsins ef fjölskyldan getur ekki hugsað sér, einhverra hluta vegna, að líffæri verði fjarlægð og færð öðrum.

Hv. 1. flutningsmaður Siv Friðleifsdóttir kom líka inn á það að á Íslandi í dag eru lifandi líffæragjafar fleiri en látnir, einstaklingar sem voru tilbúnir til að gefa nýru til handa einhverjum. Sumir hafa gefið vinum sínum, aðrir hafa gefið innan fjölskyldu.

Ég held að það sé þörf á því að við ræðum þessi mál opinberlega. Hugsanlega má halda málþing og málstefnur hvers konar til að fara yfir þetta og heyra viðhorf fólks í samfélaginu. Hér er vissulega um að ræða siðferðilega spurningu, við getum aldrei horft fram hjá því, og getur líka orkað þannig á fólk að þetta sé ósiðlegt með öllu.

Hér var líka komið inn á það í umræðunni að þetta gæti hugsanlega stangast á við trú og menningarlegan bakgrunn fólks. Ég hallast nú að því að ef svo er, sé fjölskyldu hins látna kunnugt um trú og menningarlegan bakgrunn og hún sé nokkurn veginn í stakk búin til þess að segja nei ef ætlað samþykki stangast gjörsamlega á við trú og menningarlegan bakgrunn hins látna.

Þegar frumvarpið liggur fyrir, virðulegur forseti, vænti ég þess að til verði gagnagrunnur um þá sem eru tilbúnir til gjafa, hann verði aðgengilegur heilbrigðisstarfsmönnum og virtur sé réttur fjölskyldunnar til að segja nei þrátt fyrir vilyrði hins látna til að gefa líffæri.

Það er svo seinni tíma umræða, eins og fram kemur í greinargerð flutningsmanna, hvernig og hverjir það eru sem nálgast ættingja hins látna til þess að færa það í tal að fá að nýta líffæri hins látna. Hún kemur væntanlega í framhaldi af þeirri umræðu sem fer vonandi af stað í samfélaginu um þetta mikilvæga mál, því við á Íslandi þurfum líffæri eins og allir aðrir. Margir Íslendingar sem hafa fengið líffæri — þeir hafa fengið hjörtu, þeir hafa fengið lungu, þeir hafa fengið lifur — hafa oftar en ekki fengið þau frá erlendum líffæragjöfum.

Þetta er kannski líka til umhugsunar fyrir okkur sjálf hvað við viljum gera þegar látinn einstaklingur er annars vegar ef lát hans getur hugsanlega komið öðrum til góða og bætt líf og lífsgæði annarra manneskja.

Virðulegur forseti. Ég lít svo á að hér sé um þarft mál að ræða. Það fékk fína umræðu á síðasta þingi. Það var afgreitt út úr hv. velferðarnefnd, en svo virðist vera með þetta mál eins og mörg önnur sem fá afgreiðslu út úr nefnd með fullu samþykki allra aðila að þau komast ekki í lokahnykk hvers þings til afgreiðslu. Það er miður.

Ég hvet jafnt þingmenn og nefndir til að fylgja því fast eftir að við ljúkum þeim málum sem eru komin á þann stað eins og þetta mál var á 140. þingi, á þessu þingi. Við látum þau ekki daga uppi af því við körpum um einhver önnur mál sem við teljum mikilvægari. Fylgjum eftir þeim málum sem hafa fengið fullt samþykki allra aðila í nefnd og afgreidd þaðan og klárum þau og sýnum þannig samstöðu í það minnsta með þeim þingmannamálum sem þar eru á ferðinni.