141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

ætlað samþykki við líffæragjafir.

28. mál
[17:15]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 1. flutningsmanni, Siv Friðleifsdóttur, kærlega fyrir áhuga hennar á málinu. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um ætlað samþykki við líffæragjafir. Eins og fram hefur komið í máli hv. þingmanna var lokið við það í fullri sátt frá velferðarnefnd á síðasta þingi. Ég hlakka til að fá málið þar inn aftur og geri ráð fyrir að hægt verði að ljúka því aftur í fullri sátt á tiltölulega stuttum tíma. Nefndarmenn eru ekki alveg þeir sömu og áður þannig að ég geri ráð fyrir að fram fari góð umræða um málið aftur og það verði jafnvel sent út til umsagnar eða til einhvers konar staðfestingar á umsögnum. Það kemur í ljós. Nefndarmenn ákveða sitt vinnulag.

Ég tel um afar þarft mál að ræða og er mjög ánægð með tillögutextann þar sem það kemur mjög vel fram að bæði lifandi einstaklingur og ættingjar hafa tækifæri til að neita því að gefa líffæri. Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir því að samþykkið sé ætlað gefst fólki tækifæri til að hugsa sig um, bæði hver einstaklingur á sínum líftíma og síðan aðstandendur.

Í kringum þetta mál eru heilmikil siðferðileg álitamál. Eins og kemur mjög vel fram í greinargerðinni hefur heilmikið verið skrifað um þetta mál, bæði af heilbrigðisstarfsmönnum og heimspekingum. Þó að við gerum ráð fyrir því að allir vilji koma náunga sínum til hjálpar verðum við að gæta þess mjög vel að bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum. Það getur verið sterk trúarsannfæring og auðvitað vitum við líka að það getur gerst í mikilli sorg við skyndilegt andlát að fjölskyldan hafi ekki tækifæri eða heilsu til að hugsa málið alveg í gegn — mér finnst að við verðum að gæta þess mjög að bera fulla virðingu fyrir skoðunum fólks um leið og við leggjum á það mikla áherslu í umræðunni hversu mikilvægt það sé að einstaklingar vilji gefa líffæri sín til að bjarga lífi annarra.

Það skiptir máli í þessu máli eins og í mörgum öðrum sem við höfum rætt hér og samþykkt og gert að lögum, eða samþykkt tillögur um á þingi — ég get nefnt staðgöngumæðrun sem dæmi — að fram fari upplýst og góð umræða úti í samfélaginu og þar fái mismunandi sjónarmið og skoðanir að koma fram, að þar fái fagfólk, ættingjar og fólk með reynslu að stíga fram og segja skoðun sína. Ég held að það sé ávallt gott í svona málum, sem hafa kannski tvær hliðar — þetta er ný hugsun fyrir okkur, það er ákveðinn siðferðilegur álitavinkill í málinu — að fram fari góð umræða.

Ég vona svo sannarlega að í tengslum við afgreiðslu þessa þingmáls verði þessum málum gefinn gaumur. Í þessu máli ætlum við að vera með tvöfalda umræðu. Við leggjum fyrst fram þingsályktunartillögu þar sem ráðherra er krafinn um frumvarp sem kemur þá vonandi aftur til afgreiðslu með enn þroskaðri umræðu. Ég held að þetta sé afar góður farvegur og tel gott — þó að maður geti orðið örlítið óþolinmóður og gæti alveg hugsað sér að klára málið og gera þetta að lögum — að hafa þennan feril vegna þess að málið þarf vandaða og góða umræðu og ólík sjónarmið þurfa að fá að koma fram og við þurfum að virða skoðanir annarra.

Ég hlakka til að fá málið enn og aftur til umfjöllunar í velferðarnefnd og mun leggja mitt af mörkum til þess að það fái þar góða og skjóta afgreiðslu.