141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum.

152. mál
[17:37]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (U):

Frú forseti. Það er alltaf mikilvægt að löggjöf takist á við veruleikann eins og hann er og sé nútímaleg og eigi erindi við samtímann. Þegar ég les núgildandi barnalög og jafnvel eftir að þeim hefur verið breytt sýnist mér þau ekki endurspegla alveg veruleikann eins og hann er og koma ekki til móts við samtíma sinn. Um það fjallar þessi þingsályktunartillaga, að leiðrétta vissa skekkju sem er í barnalögum og allri stofnanaumgjörð þessara mála á Íslandi. Grundvallarstaðreyndin sem þarf að mæta og aðlaga löggjöfina að á einhvern hátt er sem sagt sú að börn búa ekki alltaf á einum stað nú orðið, þau búa í mörgum tilvikum á tveimur stöðum.

Rannsóknir sýna að um 5% barna á Íslandi búa á tveimur stöðum eftir að foreldrar þeirra hafa ákveðið að slíta samvistum og jafnvel í þeim tilvikum þegar foreldrar þeirra hafa aldrei búið saman. Þrátt fyrir þá staðreynd að um 5% barna búa á tveimur stöðum talar löggjöfin alltaf um að barn búi bara á einum stað og orðalagið „þar sem barnið býr“ er mjög algengt í barnalögunum. Þessi nálgun smitar þannig út frá sér að í allri stofnanaumgjörð á Íslandi er gengið út frá því að barn búi bara á einum stað. Það er auðvitað algengast að barn búi á einum stað. Skilnaðir eru hins vegar staðreynd og í mjög mörgum tilvikum meira að segja.

Gerðar hafa verið nokkuð yfirgripsmiklar rannsóknir á Íslandi á undanförnum árum sem sýna að besta búsetuformið fyrir barn eftir skilnað er að búa jafnt til skiptist hjá báðum foreldrum sínum. Þessi þingsályktunartillaga fjallar um það í grundvallaratriðum að koma til móts við þetta og búa til lagaumgjörð sem styður þá foreldra sem vilja ala upp börnin sín saman eftir skilnað eða í þeim tilvikum þegar foreldrar hafa aldrei búið saman. Ástæðan er sú að það er líklega barni fyrir bestu í þeim tilvikum þegar foreldrar búa ekki saman að það njóti samt ríkulegrar umgengni við báða foreldra.

Þingsályktunartillagan gengur sem sagt út á það að við förum annars vegar þá leið að búa til nýtt lögformlegt hugtak á Íslandi sem mundi kallast „jöfn búseta“ og sem hefði þá einhverja lagalega þýðingu þannig að þeir foreldrar sem ákveða að ala upp barn sitt saman gætu sótt um það í sameiningu að barnið byggi í jafnri búsetu hjá þeim báðum og það mundi hafa þá þýðingu, t.d. í bótakerfinu, almannatryggingakerfinu og í skólakerfinu, að almennt væri viðurkennt að barnið byggi á tveimur stöðum. Hins vegar væri leið að leyfa tvöfalt lögheimili barns undir vissum skilyrðum. Ég hef sjálfur kannað það lauslega hjá Þjóðskrá hvort eitthvað sé því til fyrirstöðu, t.d. hvort tölvukerfið sé ekki hannað fyrir að taka upp tvöfalt lögheimili. Niðurstaðan virðist vera sú miðað við þá lauslegu könnun mína að svo sé ekki, það sé vel mögulegt að leyfa tvö lögheimili á Íslandi. Sjálfur hef ég prófað að skrifa þannig frumvarp og mér virðist það ekki vera allt of flókið. Það yrði náttúrlega háð vissum skilyrðum eins og að báðir foreldrar væru sáttir við það og svo mætti t.d. binda það við að foreldrarnir byggju í sama skólahverfi og þar fram eftir götunum.

Þingsályktunartillagan gengur út á það að mynda þriggja manna starfshóp sem færi í það innan afmarkaðs tíma að smíða besta fyrirkomulagið. Það getur annaðhvort verið nýtt lögformlegt hugtak sem nær yfir það að börn búi á tveimur stöðum eða einfaldlega að fara út í það að leyfa börnum að hafa tvö lögheimili. Ég held að það sé í mörg horn að líta í þessu máli og þess vegna leggjum við þingmenn þetta fram sem þingsályktunartillögu um að mynda starfshóp. Ég held að það þurfi að skoða nokkra lagabálka og hvaða áhrif þetta mundi hafa í bótakerfinu, skattkerfinu, skólakerfinu og þar fram eftir götunum og keyra saman nokkra lagabálka. Þetta þarf ekki að vera allt of flókið.

Ég segi að veruleikinn sé sá að fjölmargir foreldrar ákveði að ala upp börn sín saman á tveimur stöðum. Ég heyri því oft fleygt að fólk beri fyrir sig íhaldssemi þegar það segist gjalda varhuga við því að við förum að opna á þann möguleika að börn geti búið lögformlega á tveimur stöðum. Það hefur vakið mig til umhugsunar þegar fólk segist vera íhaldssamt og þar af leiðandi hafi það efasemdir um þetta. Hvaða merkingu hefur íhaldssemi í þessu? Veruleikinn er sem sagt sá að foreldrar hafa í mörgum tilvikum ákveðið að best sé fyrir barnið, og þá er það líka vegna þeirrar kröfu sem foreldrar gera til sjálfs sín og annarra, eftir skilnað að þau axli ábyrgðina á uppeldinu saman. Þau hafa ákveðið það. Annars staðar í samfélaginu hvetjum við til þess að kynin axli jafna ábyrgð á uppeldi. Við höfum t.d. breytt fæðingarorlofskerfinu þannig að feður axla núna ríkulegri ábyrgð á uppeldi nýfæddra barna sinna. Þetta er jafnréttismál ekki síður en málefni barna. Við teljum að þetta sé barni fyrir bestu og rannsóknir sýna að barni er fyrir bestu að umgangast báða foreldra sína og í þeim anda og á þeim grunni höfum við breytt fæðingarorlofskerfinu en líka á grunni jafnréttissjónarmiða. Við viljum ekki — er það? — að uppeldi barna sé nánast einungis málefni móðurinnar. Það gerir konur að öðruvísi starfskrafti á vinnumarkaði og því viljum við væntanlega breyta. Svona höfum við breytt fæðingarorlofskerfinu og svona finnst mér að við verðum að breyta því sem hér er til umfjöllunar. Íhaldssemin má ekki verða til þess að við viljum viðhalda því að eftir skilnað eða þegar foreldrar ákveða að búa ekki saman eigi barnauppeldið að vera málefni konunnar. Ég mundi segja að slík íhaldssemi væri hindrun í jafnréttisbaráttunni miðað við hvernig við höfum hugsað hana, þ.e. að jafna þessa ábyrgð kynjanna. Við eigum að gera það að sjálfsögðum hlut að eftir skilnað verði það hlutverk bæði föður og móður að axla ábyrgð á uppeldinu. Staðreyndin er sú að feður og mæður eru farin að taka þessar ákvarðanir sjálf í mjög ríkum mæli í þjóðfélaginu, en lögin fylgja ekki með.

Annars staðar á Norðurlöndum og víðar hefur fyrir löngu verið tekið upp einhvers konar fyrirkomulag sem mætir ákvörðunum foreldra um að ala börn sín upp saman eftir skilnað og er í rauninni hvatt til þess. Við erum langt á eftir, þ.e. lagabálkur okkar gerir bara ráð fyrir að barnið búi á einum stað. Þetta hefur ýmsar afleiðingar sem ég veit ekki hvort allir átti sig á.

Skatturinn skoðar til dæmis bara lögheimili barnsins, lögheimilið verður samkvæmt núverandi fyrirkomulagi að vera á einum stað, og af því leiðir er litið svo á að lögheimilisforeldrið sé alfarið með barnið á sínu framfæri. Þótt barnið búi jafnmikið á öðrum stað hjá hinu foreldrinu er barnið ekki á framfæri þess samkvæmt skattinum. Í rafrænni Reykjavík getur einungis lögheimilisforeldri haft aðgang að heimasvæði barnsins síns. Ekki er enn búið að þróa kerfi þar sem báðir foreldrar geta haft aðgang í sínu nafni þó svo að barnið búi sannarlega á tveimur stöðum. Bankar leyfa bara lögheimilisforeldri að hafa umsjón með bankareikningi barnsins síns en hitt foreldrið getur það ekki. Að opna símareikning fyrir barnið hjá símafyrirtæki er líka bundið lögheimili þess, auk ýmissa alvarlegra mála sem hafa komið upp í almannatryggingakerfinu þar sem fötluð börn sem búa á tveimur stöðum njóta bara niðurgreiðslna fyrir hjálpartæki og annað til lögheimilisins en ekki á hitt heimilið. Öll sú stóra stofnanaumgjörð sem leiðir af þessum lagalega þvergirðingshætti í barnalögum virkar þannig að foreldrar eru ekki hvattir til sameiginlegrar ábyrgðar þótt yfirgnæfandi meiri hluti ákveði sameiginlega forsjá eftir skilnað og sýni viðleitni til að axla sameiginlega ábyrgð. Þetta er letjandi lagaumhverfi. Þessu þurfum við að breyta.

Að lokum vil ég koma að því af hverju mér finnst mikilvægt að breyta þessu í grundvallaratriðum. Það er ekki bara út frá jafnréttissjónarmiðum og sjónarhóli foreldra sem kjósa að gera þetta heldur vegna þess að það er börnunum fyrir bestu.

Ég vísa í tvær yfirgripsmiklar rannsóknir sem hafa verið gerðar á meðal íslenskra barna og unglinga, aðallega unglinga, á undanförnum árum. Önnur þeirra er frá 2006. Þá voru 11.800 nemendur í grunnskóla spurðir um líðan sína. Þetta er athyglisverð rannsókn sem Þóroddur Bjarnason félagsfræðingur og Ársæll Már Arnarson sálfræðingur unnu, báðir starfa við Háskólann á Akureyri. Í stuttu máli kom í ljós að það fyrirkomulag að barn byggi á tveimur stöðum jafnt til skiptis eftir skilnað virtist hafa langbestu áhrif á líðan þess miðað við öll önnur búsetuform, t.d. að búa ríkulega hjá öðru foreldrinu eða hjá afa sínum og ömmu eða eitthvað slíkt. Í raun varð niðurstaðan sú að þeim börnum sem bjuggu jafnt til skiptis hjá báðum foreldrum eftir skilnað leið eiginlega jafn vel og þeim sem bjuggu hjá foreldrum sínum sem höfðu ekki skilið, sem er mjög athyglisvert. Þessi rannsókn og hinar sem ég ætla líka að minnast á sýna að lykilfaktorinn í vellíðan barna eftir að eitthvað alvarlegt gerist eins og skilnaður er að þau hafi áfram ríkulega umgengni við báða foreldra sína. Það er meginþátturinn í vellíðan þeirra.

Ég var að fá í hendur nýlega rannsókn sem var unnin af Benedikt Jóhannssyni, sálfræðingi í klínískri sálfræði í Reykjavík. Hann spurði 10.800 unglinga um líðan þeirra með tilliti til búsetu. Niðurstaðan varð í grundvallaratriðum sú sama: Það kemur langbest út fyrir barnið að búa jafnt til skiptis hjá báðum foreldrum eftir skilnað. Þessi þingsályktunartillaga snýst um það að við sníðum einfaldlega löggjöfina að þeirri staðreynd og hvetjum til þess að foreldrar sem vilja ala upp börn sín saman geti það sem best.