141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum.

152. mál
[17:55]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka 1. flutningsmanni þessarar góðu tillögu kærlega fyrir hana, vinnuna við hana og málefni barna og barnalög almennt. Ég held að þetta sé mjög gott mál. Við gerðum okkur grein fyrir því í velferðarnefnd í fyrra að það vantaði upp á að samin yrðu lög um börn, um raunverulegt líf þeirra og hvernig því skyldi best fyrir komið ef hag þeirra væri raskað. Það sem fjallað er um í þessari tillögu er eitthvað sem vantaði upp á vegna þess að því miður erum við oft á eftir í löggjöfinni og því að smíða lagaramma utan um veruleikann. Eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson minntist á búa um það bil 5% barna til skiptis hjá foreldrum sínum. Þá má ætla að það séu um það bil 200 í hverjum árgangi. Það er talsvert stórt hlutfall og algerlega nauðsynlegt að í kringum þessi börn verði skapaður lagarammi. Það er ekki spurning.

Ég held að fullur vilji sé fyrir því að vinna þetta mál hratt og vel í nefndinni en samt þarf auðvitað að safna öllum þeim upplýsingum sem þarf. Öll velferðarnefnd flytur þetta mál saman og jafnvel þó að einhverjar mannabreytingar hafi orðið í henni get ég ekki séð annað en að full sátt ríki um að reyna að ljúka því sem fyrst.

Mér finnst áherslur hv. þingmanns mjög góðar og ég held að við eigum að gera þær að áherslum nefndarinnar. Þetta er spurning um veruleika dagsins í dag, ekki veruleika dagsins í gær eða á síðustu öld, þ.e. veruleika barna í dag. Sem betur fer er fjöldi foreldra sem tekur þá ákvörðun að þeir geti ekki búið saman en axla fulla ábyrgð á uppeldi barna sinna og ákveða að gera það saman þó að á tveimur heimilum sé. Það að ala barn sitt upp á tveimur heimilum krefst mikillar samvinnu og það er einmitt það sem við viljum. Við viljum að foreldrar axli ábyrgð á uppeldi barna sinna þótt þeir búi ekki saman.

Eins og fram kemur í niðurlagi greinargerðarinnar er það hag barna fyrir bestu að foreldrarnir sem kjósa að annast um þau á tveimur heimilum í góðri sátt búi við sambærileg skilyrði þannig að ekki sé hvatt til ágreinings með ójafnri stöðu heimila. Við vitum að lögheimili í íslenskri löggjöf hefur mjög sterkt vægi þannig að bæði bótakerfi, skattkerfi og annað slíkt miðast við lögheimili þó svo að menn viti fullkomlega að til dæmis kostnaður af uppeldi barna dreifist algerlega á tvo aðila.

Fyrir utan það að í þessari tillögu er fjallað um það sem er barni fyrir bestu, auk þess að við erum að búa til ramma utan um veruleika dagsins í dag þar sem tekið er tillit til faglegra áherslna og rannsóknarniðurstaða, er hér um mikið jafnréttismál að ræða. Segja má að það sem konur og auðvitað sem betur fer með stóran hóp karla með sér hafa barist fyrir er einmitt að það sé sameiginleg ábyrgð beggja foreldra að sjá um uppeldi barna sinna. Þess vegna er þetta mál heilmikið jafnréttismál. Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að of mikið hefur verið brotið á rétti feðra. Það er því mikið jafnréttismál, sama hvernig á það er litið, að viðurkennt sé lögformlega að það sé eðlilegt að báðir foreldrar beri jafna ábyrgð á börnum sínum þó svo að þau búi ekki bara á einum stað.

Ég hlakka til að takast á við þetta mál í velferðarnefnd. Ég veit að það verður unnið eins og svo mörg önnur mál í mikilli sátt, en við þurfum auðvitað að afla okkur upplýsinga, senda málið út til umsagnar til að geta skilað því af okkur fljótt og vel, samt ekki í neinu óðagoti, með öflugri greinargerð þar sem við rökstyðjum vel hvers vegna þetta skiptir máli. Það verði gert hvort sem við stígum skrefið til fulls og athugum hvort hægt er að hafa tvö lögheimili — það er kannski eðlilegt og ekki óeðlilegt að ósjálfráða barn eða ósjálfráða einstaklingur geti haft heimili á tveimur stöðum — eða, ef við náum ekki svo langt, skilgreinum einhvers konar jafnt búsetuform.

En alltént er hér á ferðinni verulega gott mál sem er nútímalegt og fyrst og fremst hugsað út frá því hvað er barni fyrir bestu og er mikill áfangi í jafnréttismálum.