141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

félagsleg aðstoð.

36. mál
[18:01]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum. Þetta mál hefur verið flutt áður á 139. og 140. löggjafarþingi og eru nokkrir þingmenn Framsóknarflokksins meðflutningsmenn mínir að þessu máli.

Þetta er tiltölulega einfalt mál. 1. gr. hljóðar þannig:

„Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Styrk eða uppbót samkvæmt ákvæði þessu er heimilt að greiða öðrum en bótaþega, svo sem foreldrum eða nánum ættingjum, þrátt fyrir að viðkomandi hafi ekki sama heimili og bótaþegi. Er þá skilyrði að nægilega hafi verið sýnt fram á nauðsyn styrks eða uppbótar og að staðfesting þess efnis fáist frá heimilislækni bótaþega og félagsmálastjóra viðkomandi sveitarfélags.“

2. gr. hljóðar þannig: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Með þessu fylgir að sjálfsögðu greinargerð. Meginefni hennar er að lagðar eru til breytingar á lögum um félagslega aðstoð, þ.e. varðandi bifreiðakostnað. Hugmyndin er að koma til móts við þá einstaklinga sem ekki geta búið hjá foreldrum og ekki geta ekið sjálfir en samkvæmt reglugerð sem sett hefur verið hafa eingöngu heimilismenn leyfi til aka þeim bifreiðum sem viðkomandi getur fengið styrk til.

Ég ætla ekki að fara frekar yfir greinargerðina, frú forseti, heldur segja frá því að velferðarnefnd fékk málið til umfjöllunar á síðasta þingi og hún ákvað að flytja þingsályktunartillögu um endurskoðun laga og reglna um bifreiðastyrki hreyfihamlaðra. Nefndin taldi betra að fara fram á heildarendurskoðun á þessum málaflokki öllum saman fremur en samþykkja það frumvarp sem undirritaður mælti fyrir á þeim tíma.

Ég geri að sjálfsögðu ekki athugasemd við þá ákvörðun nefndarinnar, mælist í raun til þess að nefndin taki þetta frumvarp aftur til meðferðar og flytji aftur þá tillögu sem nefndin flutti á sínum tíma og við reynum að klára tillöguna á þessu haustþingi ef hægt er, í síðasta lagi í vetur. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við skoðum þessi mál í heild. Ég fagnaði á sínum tíma ákvörðun velferðarnefndar og þeim vilja sem kom fram til að endurskoða lög og reglur um bifreiðastyrki í heild.

Frú forseti. Ég mælist til þess að þetta litla en mikilvæga þingmál fari til velferðarnefndar að lokinni umræðu og hvet velferðarnefnd til að taka jafn vel á því nú og hún gerði á síðasta þingi.