141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

félagsleg aðstoð.

36. mál
[18:04]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhuga hans á þessu góða málefni. Það er ljóst að skoða þarf bifreiðastyrkjamálin í heild sinni, bæði hvað snertir börn og bótaþega sem ekki geta ekið og fleiri hliðar á þessu máli. Ég er ánægð með að heyra að hv. þingmaður styður þá leið sem velferðarnefnd ákvað að fara í fyrra til að ná utan um fleiri hliðar málsins en bara þessa.

Nú er staðan þannig að að öllum líkindum kemur fram á næstu vikum stórt frumvarp þar sem lagðar eru til breytingar á lífeyristryggingum og félagslegum stuðningi, eins og nú er almennt talað um. Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki nákvæmlega hvernig frumvarpið er en að minnsta kosti er ljóst að þar verða þessi bifreiðamál tekin upp. Það er gerð talsverð breyting á þeim kafla. Mig langaði að upplýsa þingmanninn um það og heyra frá honum hvort við getum náð utan um þetta mál með því frumvarpi sem væntanlegt er ef það er í þessum anda, ef þær efnislegu breytingar sem hann vill ná fram koma fram í breytingum á almannatryggingafrumvarpinu.