141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

kjarasamningar opinberra starfsmanna.

175. mál
[18:08]
Horfa

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Síðastliðinn laugardag gekk þjóðin að kjörborðinu og greiddi atkvæði um það hvort hér skyldi sett ný stjórnarskrá. Það er dálítið athyglisvert í ljósi þess að mér sýnist að nokkuð oft hafi komið til þess að stjórnarskráin sé ekki haldin. Mér finnst að menn ættu nú að vanda sig meira við að halda núverandi stjórnarskrá en að taka upp nýja sem yrði kannski ekki heldur farið eftir. Nokkur dæmi hafa verið nefnd um þetta, en í þeim lögum sem þetta frumvarp fjallar um, lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, er að mínu mati gengið þvert á stjórnarskrá í nokkuð mörgum atriðum.

Þetta er mjög einfalt frumvarp. Lagt er til að ein grein í starfsmannalögunum falli niður, í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna en það er 2. mgr. 7. gr. Þetta er ein málsgrein. Hún segir svo, með leyfi frú forseta:

„Starfsmaður, sem lög þessi taka til og eigi er innan stéttarfélags samkvæmt lögum þessum, greiði til þess stéttarfélags, sem hann ætti að tilheyra, gjald jafnt því sem honum bæri að greiða væri hann í því, enda fari um laun hans og önnur starfskjör samkvæmt samningum þess samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra eða sveitarstjórnar. Þá ákvörðun skal tilkynna viðkomandi sveitarfélagi.“

Þetta segir að opinber starfsmaður skal greiða til stéttarfélags hvort sem hann vill vera félagi í því eða ekki. Þetta er mjög athyglisvert. Ég er búinn að leggja þetta frumvarp fram sjö sinnum og ég hef fullyrt í hvert skipti að þetta sé brot á stjórnarskrá en það gerist ekki neitt, frú forseti. Menn halda áfram á þessari braut og andmæla því ekki heldur að þetta sé brot á stjórnarskrá.

Af hverju er þetta brot á stjórnarskrá? Í fyrsta lagi vegna þess að það ríkir félagafrelsi. Segjum sem svo að opinber starfsmaður, til dæmis í einhverjum leikskóla, sé óánægður með kjör sín og starfsmennirnir þar flestir. Þeir vilja stofna stéttarfélag til að berjast fyrir bættum kjörum en þeir mega það ekki vegna þess að sveitarfélagið semur við annað stéttarfélag um kjör starfsmanna á þessum leikskóla. Þessir opinberu starfsmenn sem og allir aðrir opinberir starfsmenn njóta ekki þeirra sjálfsögðu mannréttinda að fá að stofna stéttarfélag til að berjast fyrir kjörum sínum.

Það vill svo til að það er ákveðin grein í stjórnarskránni sem tekur einmitt á þessu. Þar segir að með lögum skuli kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Starfsmennirnir geta sem sagt ekki stofnað stéttarfélag vegna þess að sveitarfélagið semur við hið opinbera stéttarfélag sem lög þessi negla niður. Þetta er fyrsta atriðið í lögunum sem brýtur gegn stjórnarskrá.

Síðan er líka athyglisvert að það ríkir félagafrelsi en það að láta menn greiða í stéttarfélag er nánast ígildi þess að þeir séu neyddir til að ganga í félagið. Annars fá þeir ekki öll þau réttindi sem byggja á greiðslu félagsgjaldsins. Það eru alls konar réttindi svo sem sjúkrasjóður, orlofsheimili og ég veit ekki hvað sem fylgja því að greiða félagsgjald í stéttarfélag. Maður sem neitar að ganga í félagið nýtur þess ekki þótt hann sé látinn borga í stéttarfélagið. Þetta er ígildi þess að neyða manninn í félagið. Það brýtur ákvæði stjórnarskrár um félagafrelsi.

En það er miklu fleira. Hver ákveður félagsgjaldið, frú forseti? Hver gerir það? Það er félagsfundur í viðkomandi stéttarfélagi. Hann ákveður félagsgjaldið, hvort það sé 0,1%, 1% eins og það er oftast, 1,5%, 5% eða jafnvel 100% af launum. Félagsfundur gæti ákveðið að félagsgjaldið í ákveðnu stéttarfélagi yrði 100% af launum. Það væri dálítið undarleg hugsun en þetta gæti komið upp og þá yrði launaskrifstofa ríkisins eða sveitarfélagsins að innheimta viðkomandi félagsgjald af starfsmanninum. Það brýtur 40. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir: „Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum.“ Það má ekki setja svona skatt. Þetta er ígildi skatts.

Mér finnst því þessi lög brjóta stjórnarskrá á fjöldamargan hátt.

Ég ætla ekki að lengja þetta mikið. Málið var sent til umsagnar fyrir nokkru síðan og flestir aðilar sem fengu það til umsagnar mæltu gegn því. Það voru enda stéttarfélög sem fengu það til umsagnar og þau vilja náttúrlega viðhalda þessari skattlagningu. Það er náttúrlega voðalega þægilegt fyrir stéttarfélag að geta sagt: Allir læknar borga í Læknafélagið — punktur. Það þarf ekkert að sækja um eða afla félagsmanna eða eitthvað slíkt. Það þarf heldur ekki að sækja um eða afla félagsmanna í fóstrufélagið eða Félag íslenskra náttúrufræðinga eða eitthvað slíkt. Þeir eiga bara að borga þar inn samkvæmt þessum lögum. Og það þarf ekki að vandræðast mikið með það hvort forstöðumenn fái fleiri félagsmenn eða hvort menn vilji ganga í félagið. Þeir skulu ganga í félagið og þeim er sendur reikningurinn. Eftir því er líka samband stéttarfélagsins við félagsmenn sína eða ekki-félagsmenn.

Sumir hafa sagt að félagsgjaldið sé þjónustugjald. Jú, það má kannski segja það að ef menn ganga í stéttarfélag njóta þeir hugsanlega þeirra kjara sem um er að ræða, en oft og tíðum þurfa starfsmennirnir engu að síður að semja um sitt kaup og sín kjör. Þau rök að þetta sé þjónustugjald falla niður þegar maðurinn þarf að ræða við vinnuveitandann um kaup sitt og kjör, þ.e. um betri kjör en ríkið býður. Þetta á til dæmis við um háskólamenn og aðra slíka sem eru í þeirri stöðu, sérstaklega hjúkrunarfræðinga og lækna núna sem segja: Ég fer bara til Noregs. Ég hef ekki efni á að vera hér á Íslandi. Meira að segja forstjóri ákveðins spítala er í þeirri stöðu. Þetta er ekki þjónustugjald, ég tel að þetta sé skattur og brýtur ákvæði stjórnarskrár um félagafrelsi að mörgu leyti.

Greinargerðin er töluvert lengri, ég ætla ekki að lesa hana alla, ég hef farið í gegnum hana áður. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og hún geri eitthvað í málinu, frú forseti. Mér finnst að menn eigi þá að sanna að þetta brjóti ekki stjórnarskrá. Ef þetta brýtur stjórnarskrá eiga menn að sjálfsögðu að fella niður 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.