141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það er einn dásemdardýrðardagurinn enn í íslensku þjóðfélagi og ég vil byrja á því líka að óska okkur öllum innilega til hamingju með kvennafrídaginn. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan stóri fundurinn var hér 1975 og svo hefur okkur heldur betur miðað áfram þrátt fyrir að við séum komin með forsætisráðherra sem hefur brotið jafnréttislög. Ég ætla ekki að tala um það núna (Gripið fram í: Nú?) [Hlátur í þingsal.] eða það að búið sé að tala niður og brytja fæðingarorlofið í smátt. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta þegar ég las grein forsætisráðherra í dag um að undirrita ætti viljayfirlýsingu með heildarsamtökum aðila vinnumarkaðarins um að stórefla baráttuna fyrir launajafnrétti kynjanna. Síðan segir forsætisráðherra: Nú verða verkin að tala. Það er nefnilega það. Það er nefnilega ekki gengið beint í verkið þegar búið er að setjast niður með aðilum vinnumarkaðarins af hálfu ríkisstjórnarinnar, það þekkjum við.

Batnandi mönnum er samt best að lifa og við sem hér erum (Gripið fram í.) eigum auðvitað að halda áfram að breyta heiminum, vera svolítið glöð og ánægð og pínulítið stolt af sjálfum okkur og taka þátt í því að breyta heiminum með meðal annars fótboltastelpunum okkar. Við erum búin að sjá stórkostlegan árangur hjá fimleikastelpunum okkar, til hamingju með það, en núna er ákall, m.a. frá Sigga Ragga, Sigurði Ragnari Eyjólfssyni, þjálfara kvennalandsliðsins okkar í fótbolta. Stelpurnar eru að fara að spila á móti Úkraínu á morgun og hann hvetur okkur til þess að mæta á leikinn og breyta þannig heiminum. Stelpurnar hafa aldrei spilað fyrir fullum Laugardalsvelli. Hann segir í mjög athyglisverðum pistli, með leyfi forseta:

„Það eru 18 stelpur sem spila alltaf með hjartanu og fórna sér fyrir íslensku þjóðina. Þær hafa alist upp við að stelpur í fótbolta séu ekki jafnmerkilegar og strákar. Það hefur meðal annars endurspeglast í því að mun færri koma að styðja þær heldur en strákana okkar.“

Hann segist vonast til þess að fá fullan Laugardalsvöll.

„Með því að það verður uppselt á kvennalandsleikinn breytum við heiminum. Ekki bara hjá þeim 18 stelpum sem klæðast landsliðstreyjunni í leiknum heldur í huga allra lítilla stúlkna sem æfa íþróttir á Íslandi. Stelpurnar eru nefnilega jafnmerkilegar,“ segir Siggi Raggi. Við skulum taka þátt í þessu, við skulum nota (Forseti hringir.) íþróttamálið, frú forseti: Koma svo, höldum áfram, gerum betur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)