141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla eiginlega að spyrja um endurtekið efni, fréttir af því að útrásarvíkingar eru að kaupa aftur fyrirtækin sem þeir töpuðu eftir að búið er að afskrifa gífurlegar fjárhæðir, tugi eða hundraða milljarða. Við fáum líka fréttir af því að í gangi séu útboð til almennings og við vitum að lífeyrissjóðirnir hafa tapað óhemjufé í eigu almennings. Við vitum enn fremur að búið er að kaupa eitt stykki flugfélag og fóru menn létt með það.

Ég vil færa þetta yfir á það að menn eru að láta peninga fara í hringi innan hlutafélaga og hef ég bent á það mörgum sinnum. Það er alþjóðleg villa sem erfitt er að leiðrétta. Einhvers staðar eru þessar reglur um hlutafélögin búnar til og mig langar að spyrja hv. þm. Árna Pál Árnason sem hefur verið hæstv. viðskiptaráðherra og haft mikil tengsl við Evrópusambandið hvort honum sé kunnugt um hvar í innsta hjarta Evrópusambandsins þessar reglur eru smíðaðar, bæði reglur um ársreikninga sem greinilega eru rangir og eins varðandi hlutafélög, að menn geti ekki búið til svona hringferla fjár. Það er ástæðan fyrir því að menn fóru allt í einu að tala á Íslandi um milljarða í staðinn fyrir milljónir. Við fórum að sjá tap upp á tugi milljarða sem eru óskaplega stór tala ef hv. þingmaður skyldi ekki vita það.

Hvar í Evrópusambandinu er hægt að finna þann kjarna, það hjarta, sem ákveður þessar reglur, tala við þá menn sem standa fyrir þeim og benda þeim á þessa veilu? Það mætti spyrja þá hvort það sé ekki gott fyrir Evrópusambandið að breyta þessu þannig að Ísland geti líka breytt sínum reglum.