141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að nota tækifærið og vekja athygli á máli sem kom fram í ríkissjónvarpinu fyrr í vikunni þar sem fjallað var um fósturforeldra. Það var meðal annars viðtal í Landanum, að ég held, við fósturforeldra sem lýstu þeirri stöðu sem þessir aðilar eru í. Það kom líka fram að um 350 börn og unglingar fara til um 270 heimila á hverju ári. Það sem stendur upp úr í þetta sinn er það að þessi börn eru ekki tryggð inni á þessum heimilum. Svo virðist sem heimilistryggingar eða tryggingar almennt nái ekki til þessara barna, tryggingafélögin og ríkisvaldið virðast líta þannig á að fósturforeldrar séu í þessu tilviki verktakar þannig að ríkið geti ekki ábyrgst þá eða borið einhvern kostnað af ef á þarf að halda. Ég held að velferðarnefnd þingsins þyrfti að taka þetta mál til skoðunar því að mér finnst algjörlega ótækt að svo stór hluti sé í þessari stöðu. Það úrræði að senda börn í fóstur til annarrar fjölskyldu eða á annað heimili er vitanlega með hag barnsins í huga og þá hljótum við líka að horfa til þess að heildarmyndin sé í lagi.

Því vildi ég nota tækifærið til að hvetja okkur öll hér inni og um leið ráðherrana ef þeir heyra í mér að láta þetta mál til sín taka og reyna að breyta þessum lið þannig að börnin fái í það minnsta sómasamlegar tryggingar inn á heimilin.