141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar ræddi aðeins um störf efnahags- og viðskiptanefndar síðustu daga og ég held að það skipti máli að menn átti sig á heildarsamhengi þess máls. Fyrir nokkrum árum féll dómur um að gengistrygging væri ólögleg og illu heilli voru í miklum flýti sett lög í kjölfarið. Þau fólu það í sér að þeim sem brutu á lántakendum var gefið sjálfdæmi í sínum málum. Í kjölfarið nýtti sér þáverandi hæstv. ráðherra ekki þá reglugerðarheimild sem hann hafði til að leggja upp með lánin. Hins vegar notuðu allar fjármálastofnanirnar sömu reikniaðferð sem hefur nú komið í ljós að stenst ekki lög eins og gagnrýnt var á þeim tíma, bæði það sem snýr að inngreiðslum á höfuðstól sem og afturvirkni laga.

Það sem við sjáum hér er að eftirlitsstofnanir hafa líka brugðist, ekki bara stjórnvöld. Við erum enn þá á þeim stað að fólk veit ekki rétt sinn og það er auðvitað mjög mikilvægt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fjalli um mál og að við köllum til aðila en við erum með risastofnanir sem eiga að hafa eftirlit með þessum þáttum.

Ég lagði þess vegna til ásamt fleiri þingmönnum, hv. þm. Pétri Blöndal, hv. þm. Lilju Mósesdóttur og hv. þm. Eygló Harðardóttur, að efnahags- og viðskiptanefnd fæli Ríkisendurskoðun að setja upp reiknivél fyrir lántakendur erlendra lána. Aðstöðumunurinn á milli lántakenda og fjármálafyrirtækja er gríðarlegur og lántakendur verða einhvers staðar að geta fengið, án þess að leggja út í mikinn kostnað, upplýsingar um það hvernig raunverulegur endurreikningur á að vera. Núna er það ekki hægt, virðulegur forseti, ef undan er skilið að menn geta farið á heimasíðuna mína og skoðað þar lánareikning (Forseti hringir.) sem ég setti inn fyrir mörgum árum en annars er þetta ekki til staðar og þessum málum er hvergi nærri lokið, þvert á það sem lagt var upp með.