141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli og máls á þessu máli. Það er rétt, það varð mengunarslys í Silfru fyrir síðustu helgi við kvikmyndatökur. Sett var niður tæki sem smitaði frá sér málningarflygsum.

Það eru í gildi mjög stífar reglur um kvikmyndatöku á Þingvöllum. Það þarf til þess sérstakt leyfi og það er fylgst mjög vel með umgengni og ekki síður viðskilnaði eftir slíka atburði sem eru oft mannmargir og taka mikið til sín. Vegna þeirra þarf að takmarka umgengni annars fólks á tilteknum stöðum. Kvikmyndafélagið hafði öll tilskilin leyfi.

Ljóst var hver uppspretta mengunarinnar var og tekin var sú ákvörðun að stöðva ekki kvikmyndatökuna heldur ljúka henni og hreinsa þetta síðan upp að henni lokinni sem ég vænti að verði núna um næstu helgi.

Það er rétt að margar hættur steðja að Þingvallavatni. Mengunarslys eins og þetta er því miður ekki einsdæmi. Á síðustu missirum höfum við upplifað þrjú, þetta er þriðja slíka slysið. Ég vil nefna að fyrir tveim, þrem vikum varð slys úti á vatni þegar bát rak upp á sker. Sem betur fer slösuðust menn ekki alvarlega í því en ef olíutankurinn hefði rifnað hefði geta farið illa fyrir lífríki vatnsins.

Fyrir nokkrum missirum, líklega árið 2010 eða 2011, var fyrir vangá starfsmanna hreinsunarfyrirtækis hellt niður seyru í hraunið ofan við Þingvallavatn og seyran barst auðvitað beina leið út í vatnið. Þetta er það sem er hættulegast vatninu, þ.e. niturmengun, og það er rétt, því miður, að þá lætur gegnsæi og tærleiki vatnsins undan síga. Það eru víðtækar rannsóknir akkúrat núna í gangi á því, verið er að efla vöktunina, einmitt þess vegna.

Innan tveggja vikna mun koma út ný skýrsla sem sýnir þróunina á undangengnum árum og það er mjög mikilvægt að við bregðumst hart við. Uppspretturnar eru þekktar, (Forseti hringir.) það er klóakið, það er umferðin, það eru barrtrén og síðan er það bara allt umhverfið okkar. Við verðum að stöðva það sem við getum í manngerðu menguninni þar, annars fer illa fyrir Þingvallavatni.