141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er fjölmargt áhugavert sem fram hefur komið í umræðunni í dag. Mig langar aðeins að blanda mér í umræðuna um Þingvelli og benda Þingvallanefnd á þá umræðu sem — ég vona að Þingvallanefnd hafi þegar fjallað um athugasemdir frá heimamönnum sem ætluðu sér að reyna að flytja áburð til landgræðslu upp í afrétt þar fyrir ofan en fengu ekki heimildir til og þurftu að fara mjög langa leið til að sinna þeim uppgræðslustörfum sínum. Ég vonast til þess að Þingvallanefnd hafi fjallað um það í störfum sínum.

En það sem ég ætlaði að vekja athygli á er málefni Íslenskrar ættleiðingar. Ég hef áður fjallað um það hér í þessum sal, beint fyrirspurn til ráðherra um það. Ég bendi þingheimi á að enn er ekki komin inn hækkun á fjárveitingu til þeirra verkefna sem Íslensk ættleiðing hefur séð um. Við í velferðarnefnd fengum á fund til okkar í morgun fulltrúa úr velferðarráðuneytinu sem fjallaði um þetta með okkur og maður bindur að sjálfsögðu vonir við það að aukin fjárframlög komi inn núna við 2. umr. fjárlaga. Ég vil einfaldlega vekja athygli þingheims á þessu. Við ræddum þetta hér fyrr í vetur og ég skoraði þá á þingheim að beita sér fyrir því að við mundum tryggja að þessi mál kæmust í öruggan farveg. Enn hefur ekki verið ritað undir þjónustusamning við Íslenska ættleiðingu. Ég vil einfaldlega hvetja til þess að þeirri vinnu verði hraðað svo þessi mál séu í öruggum farvegi, og þingheimur allur þarf að fylgjast vel með því að fjárveitingar komi inn í þennan málaflokk til að ekki komi til þess, líkt og forsvarsmenn félagsins vöktu okkur þingmenn hér til umhugsunar um, að félagið einfaldlega gefist upp á því að sinna þessum verkefnum. Miklar skyldur eru lagðar á félagið og það vill að sjálfsögðu sinna sínu verkefni vel en til þess þarf fjárframlög.