141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

125. mál
[15:45]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, með síðari breytingum. 1. flutningsmaður málsins er hv. þm. Margrét Tryggvadóttir en ég mæli fyrir frumvarpinu í fjarveru hennar. Meðflytjendur eru sá er hér stendur og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir.

„Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Hámarkslaun forsvarsmanns stéttarfélags eða samtaka stéttarfélaga skulu ekki vera hærri en þreföld lágmarkskjör í því félagi sem hann veitir forstöðu skv. 1. mgr.“

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða eru: Hafi ákvæði 1. gr. í för með sér skert launakjör forsvarsmanns stéttarfélags skal hann halda óbreyttum launakjörum þann tíma sem réttur hans til uppsagnarfrests er.

Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta, sem var lagt fram á 139. löggjafarþingi og svo aftur á 140. löggjafarþingi, felur í sér breytingu á lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Breytingin miðar að því að lögfesta reglu um hámarkslaun forsvarsmanna verkalýðsfélaga og hagsmunasamtaka launafólks þannig að þau geti aldrei orðið hærri en nemur þreföldum lágmarkskjörum, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Í því ákvæði er kveðið á um að laun og önnur starfskjör sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um séu lágmarkskjör í viðkomandi starfsgrein. Í ákvæði til bráðabirgða er þó kveðið á um að séu forsvarsmenn við gildistöku laganna með samningsbundin launakjör sem eru hærri en það viðmið sem sett eru í frumvarpinu haldi þeir þeim jafnlengi og lögboðinn uppsagnarfrestur þeirra gildir. Eftir þann tíma geta þeir að hámarki haft laun sem nema þreföldum lágmarkskjörum samkvæmt lögunum.

Samningsfrelsi er grundvallarregla í íslenskum rétti. Löggjafinn hefur þó talið rétt að setja samningsfrelsinu ákveðnar skorður séu rík rök þar að baki. Meðal þeirra raka sem oft er vísað til eru almannahagsmunir. Flutningsmenn frumvarpsins telja mikilvægt að sett sé hámark á laun forsvarsmanna verkalýðsfélaga og hagsmunasamtaka launafólks. Að baki slíku hámarki eru rík sanngirnissjónarmið enda eru þessi laun greidd úr sameiginlegum sjóðum verkalýðsins. Með frumvarpinu væru samningsfrelsi settar nokkrar skorður enda yrði ólöglegt að semja um hærri laun en nemur þreföldum lágmarkskjörum. Við ákvörðun þessa hámarks var þó gætt meðalhófs og ekki gengið of nærri samningsfrelsi aðila. Með því að kveða á um þreföld lágmarkskjör er enn fremur talið tryggt að hámarkið sé ákvarðað þannig að launin séu samkeppnishæf svo að hæft fólk fáist til starfans og ákvæðið dragi ekki úr hvata þeirra sem hæfastir eru til að sinna starfinu. Flutningsmenn telja jafnframt rétt að vekja athygli á því að setning hámarks sem er á þennan hátt bundið lágmarkskjörum getur verið forsvarsmönnum mikilvægur hvati til að berjast fyrir bættum rétti félagsmanna þar sem hækkun lágmarkslauna getur leitt til beinnar hækkunar launa þeirra.“

Sá er hér sendur er innilega sammála þessari hugmyndafræði og er einn af þeim sem svíður það þegar fyrrverandi forsvarsmaður stærstu launþegasamtaka landsins býr nú í um 500 m² einbýlishúsi í Arnarnesinu. Myndast hefur risavaxin gjá milli forsvarsmanna launþegahreyfingarinnar og almennra félagsmanna. Eftir það sem fram hefur komið í fréttum undanfarna daga frá frá þingi ASÍ í síðustu viku er hægt að setja stórt spurningarmerki við það hvort forsvarsmenn launþegahreyfingarinnar á Íslandi séu yfir höfuð að gæta hagsmuna launþega.

Á ASÍ-þinginu var meðal annars lögð fram tillaga frá Vilhjálmi Birgissyni, formanni Verkalýðsfélags Akraness, um að verðtrygging yrði afnumin. Verðtryggingin er, eins og alþjóð veit, mesti bölvaldurinn sem íslenskt launafólk hefur þurft að búa við undanfarna áratugi, hún hefur sett þúsundir heimila á landinu á hausinn og komið tugþúsundum manna í alvarlega greiðsluerfiðleika. Tillögu Vilhjálms Birgissonar á ASÍ-þinginu var hafnað af forustumönnum launþegahreyfingarinnar og því get ég ekki annað en spurt: Hvað er í gangi hjá Alþýðusambandi Íslands?

Vilhjálmur Birgisson lagði einnig fram tillögu á þinginu um að kosning til formennsku í launþegahreyfingunni yrði beint kjör, þ.e. að félagsmenn sjálfir kysu beint fulltrúa sína og talsmenn, þar á meðal formann ASÍ. Lýðræðisvæðing í launþegahreyfingunni er að sjálfsögðu nauðsynleg. Ég var sjálfur í verkalýðsfélagi í langan tíma og sat þar á meðal í trúnaðarráði verkalýðsfélags í næstum áratug. Sú uppsetning og það fyrirkomulag sem ríkir almennt í verkalýðshreyfingunni á Íslandi, þó ekki undantekningarlaust, er svokallað lenínískt fyrirkomulag þar sem stjórn í verkalýðsfélagi leggur til að uppstillingarnefnd stilli upp nýrri stjórn í félagið sem síðan er kosið um. Það á sér ákveðnar sögulegar rætur frá því fyrir rússnesku byltinguna á sínum tíma en er orðin alger tímaskekkja í nútímasamfélagi og löngu orðið tímabært að því fyrirkomulagi sé kastað fyrir róða og nýju lýðræðislegra fyrirkomulagi komið á.

Tillögu Vilhjálms um aukið lýðræði í verkalýðshreyfingunni þar sem þeir sem greiða gjöldin til að borga þessu fólki laun, var líka hafnað af forsvarsmönnum verkalýðshreyfingarinnar og ASÍ. Því spyr maður sig aftur: Hagsmuna hverra gæta forsvarsmenn launaþegahreyfingarinnar?

Það þarf að sjálfsögðu að taka rækilega til endurskoðunar, í kjölfar þessa nýafstaðna ASÍ þings, skylduaðild að verkalýðsfélögum sem halda svona á málum. Sjálfur hef ég alla mína starfsævi verið eindreginn talsmaður laga um verkalýðsfélög og skylduaðild að verkalýðsfélögum og eins og áður kom fram var ég í verkalýðsfélagi í áratugi og gegndi þar á meðal trúnaðarstörfum fyrir verkalýðsfélög. En þegar félagsmenn og fleiri upplifa forsvarsmenn og verkalýðsfélögin með þessum hætti, að þau gangi beinlínis gegn hagsmunum félagsmanna, er varla forsvaranlegt lengur að gera skylduaðild að verkalýðsfélögunum lögbundna. Það mætti þá hugsa sér að frjálst félagsval yrði innleitt, þ.e. að fólk gæti valið sér verkalýðsfélag eftir hentugleika eða að fólk gæti valið sér til hvaða verkalýðsfélags félagsgjöld þess gengju. Það hefur orðið gerbreyting á öllu starfsumhverfi verkalýðsfélaga undanfarna áratugi og þau eru ekki lengur eins niðurnjörvuð og þau voru og nýjar aðstæður bjóða upp á endurhugsun á fyrirkomulaginu.

Eins og staðan er í dag virðist stór hluti verkalýðshreyfingarinnar því miður vinna beinlínis gegn hagsmunum félagsmanna, eins og Alþýðusamband Íslands. Slíkt er í rauninni ólíðandi og stjórnir verkalýðsfélaga sem hafna beinu kjöri á sjálfum sér eru líka ólíðandi.

Í framhaldi af flutningi þessa þingmáls, sem fjallar um kjör æðstu stjórnenda verkalýðsfélaga, mun ég að sjálfsögðu vekja athygli á því og jafnvel leggja fram breytingartillögur á ferli málsins í gegnum þingið um með hvaða hætti hægt er að bæta rétt hinna almennu félagsmanna í verkalýðshreyfingunni. Það er til dæmis hægt með því að gera félagsmönnum kleift að greiða félagsgjöld sín til annarra félaga sem gæta þá frekar hagsmuna þeirra, eða hugsanlega að afnema skylduaðild að verkalýðsfélögum. Í því umhverfi sem launafólk býr við í dag, sérstaklega með tilliti til þess hvernig launþegahreyfingin hefur gengið fram alveg frá hruni og til síðasta ASÍ-þings í síðustu viku, er mjög mikilvægt að frumvarpið fái framgang og sem besta umfjöllun í þeirri nefnd sem það fer til. Hvet ég þá nefnd jafnframt til að velja málinu góðan farveg og reyna að afgreiða það sem hraðast.