141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum.

154. mál
[16:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég tek undir hvert orð sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagði í framsögu sinni um þingsályktunartillöguna sem við leggjum báðar fram varðandi mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum. Þá kann einhver að spyrja: Af hverju er ekki búið að gera þetta? Af hverju er ekki löngu búið að styðja við afreksfólk í íþróttum? Það hefur verið gert að einhverju leyti og þar eins og annars staðar hafa menn náttúrlega reynt að forgangsraða. Í heildina hefur sem betur fer verið þannig á málum haldið að þetta er að tutlast inn, en það er bara ekki nóg.

Þegar við stóðum frammi fyrir auknum kostnaði íþróttaiðkenda á landsbyggðinni sáum við að koma þyrfti til móts við þær þarfir að öll börn, hvar sem þau væru búsett á landinu, hefðu jöfn tækifæri til að sækja keppnir á vegum Íþróttasambandsins. Þess vegna ákvað íþróttahreyfingin í samvinnu við menntamálaráðuneytið fyrir einhverjum árum — ætli það hafi ekki verið í kringum 2006, fyrir um sex árum — að forgangsraða í þágu ferðasjóðs íþróttafélaga. Við ræddum afrekssjóðinn mjög mikið, vissum að það mundi skipta máli að hann yrði efldur til lengri tíma, en þessu var forgangsraðað með þeim hætti þá.

Það sama gildir um sérsamböndin þar sem við sjáum að minna er um sjálfboðaliða en áður. Álagið er mikið á því fólki sem starfar innan íþróttafélaganna. Við sjáum það víða annars staðar, innan æskulýðshreyfingarinnar og tómstundafélaganna, í tómstundastarfi víða um landið, að æ erfiðara verður að fá fólk í sjálfboðavinnu til að sinna því merkilega starfi sem innt er af hendi innan íþróttahreyfingarinnar og æskulýðsfélaganna og í öðru tómstundastarfi.

Eftir Ólympíuleikana 2008, í ljósi glæsilegs árangurs karlalandsliðsins okkar í handbolta, þegar þeir unnu það frækilega afrek að fá silfurverðlaun, þá sammæltust menn um að stíga yrði næsta skref, það yrði að vera í afrekssjóðnum eftir að hafa komið að ferðasjóðnum og sérsambandssjóðnum yrði afrekssjóðurinn að vera næstur. Síðan kom hrunið. Ég ætla ekki að gagnrýna hástöfum núverandi menntamálaráðherra en við verðum að skilja þá erfiðleika sem hún hefur staðið frammi fyrir. En eins og annars staðar þarf að forgangsraða. Ég hefði til dæmis kosið að ráðuneytið hefði forgangsraðað í þágu afrekssjóðs í stað þess að koma upp Fjölmiðlastofu, svo að dæmi séu tekin innan þess ráðuneytis. Ég hefði kosið að láta fjárveitingu í íþrótta- og æskulýðsstarf í staðinn fyrir að koma upp einni ríkisstofnun. Þetta er þeirra forgangsröðun. Gott og vel, það er hægt að gagnrýna hana, en ég hef skynjað mikinn vilja af hálfu hæstv. ráðherra í þessa veru, sem meðal annars birtist í því að við afgreiðslu síðustu fjárlaga var samþykkt að bæta 5 millj. kr. við íþróttaafrekssjóðinn okkar.

Við þurfum að gera betur. Við þurfum að sýna það í verki, ekki bara hafa orð á því í 17. júní ræðum úr þessum stól eða annars staðar, fólk úr öllum flokkum, að okkur sé alvara með að styðja við afreksfólkið okkar. Nú á kvennafrídaginn erum við að upplifa þá hvatningu sem felst í hinu stórkostlega afreki stúlknanna okkar í fimleikum. Við erum að ná í stórfenglega og mikilvæga titla hvort sem er í stelpuflokknum eða kvennaflokknum. Þær íþróttakonur geta orðið fyrirmyndir fyrir þær stúlkur sem stunda fimleika.

Það sama gildir um stelpurnar okkar í fótboltanum. Ég hvet alla til að fara á leikinn á morgun, taka með sér hóp af fólki til að styðja við stelpurnar okkar á móti Úkraínu svo að þær komist í lokakeppni Evrópumótsins í fótbolta, þannig að þær spili fyrir fullum velli. Það er draumur þeirra að geta gert það og finna hlýjuna, stuðninginn og einlægnina hjá þjóðinni til að standa á bak við þær.

Allt þetta skiptir máli varðandi áframhaldandi uppbyggingu íþróttastarfs. Þess vegna verðum við að sýna metnað. Sá metnaður kemur ekki fram í frumvarpi til fjárlaga. Ég hef talað við ráðherra og við höfum átt orðaskipti í þessum stól og það hefur verið sagt að menn vonist til að þetta lagist milli 2. og 3. umr. Þannig talar hver ráðherrann á fætur öðrum. Þá verður ríkisstjórnin að þora að forgangsraða í samstarfi við Alþingi í hvað það vill setja fjármuni sína.

Ég tel mikilvægt að vel verði farið yfir þessa þingsályktunartillögu sem við tölum fyrir, ég og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sem veit nú meira en margir aðrir um málefni íþrótta og íþróttafólks. Það þarf að fara vel yfir þessa stefnu og skoða á henni breytingar í þá veru að við takmörkum okkur til að mynda við Ólympíuleikana. Við upplifðum stórfenglega Ólympíuleika 2012 í London. Næstu leikar verða í Brasilíu 2016. Það eru ekki nema 12 ár þar til árið 2024 gengur í garð og þá eru það þriðju Ólympíuleikarnir. Við eigum að geta markað ákveðna stefnu um hvaða árangri við viljum ná á þeim leikum sem fram undan eru 2016, 2020 og 2024. Ég vil alla vega að það verði skoðað og kannað í samráði við Íþrótta- og Ólympíusambandið að við reynum að setja okkur mælanleg markmið.

Við erum sterkari í sumum greinum en öðrum. Það er eins og gengur. Við eigum að setja stefnuna hátt. Við sjáum að við getum svo sannarlega gert það í fimleikunum. Við getum gert það í kvennafótboltanum. Við getum gert það í karlahandboltanum. Við getum gert það í sundinu. Við sjáum líka alveg ótrúlega efnilega íþróttamenn, t.d. í frjálsum íþróttum, hvort sem við nefnum hlaup eða stangarstökk eða aðrar greinar.

Tækifærin eru mörg. Við eigum að reyna að sjá hvað við getum. Það er stórkostlegt að 320 þúsund manna þjóð skuli geta framleitt, ef svo má að orði komast, íþróttamenn í fremstu röð á heimsvísu. Við verðum þá að styðja íþróttir eins og aðrar tegundir menningar. Ég tel íþróttir til menningar. Við sjáum aðra vaxtarsprota menningar stuðla að því að við höfum eflst sem þjóð út á við og í alþjóðasamskiptum, hvort sem það eru bókmenntakynningar, tónlistin, kvikmyndir o.s.frv. Við eigum að nýta okkur þetta. Allt skiptir þetta okkur máli og þar spila íþróttirnar stórt hlutverk. Íþróttamenn eru líka talsmenn Íslands og það hlutverk hefur íþróttafólkið okkar rækt með sóma.

Ég hvet þá sem eru í allsherjar- og menntamálanefnd — það vill svo til að ég er þar líka — til að fara vel yfir þessa tillögu. Ég vil að menn átti sig á því að henni fylgir eindreginn stuðningur við það að vinna þetta í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið sem hefur staðið sig ágætlega þrátt fyrir erfiða tíma. Ég gat þess áðan að ég hefði viljað sjá forgangsröðunina aðra af hálfu ráðherra, en það er eins og gengur. Ég held hins vegar að ákveðin tækifæri séu í þessu og ég sé metnað af hálfu forustumanna ráðuneytisins, af hálfu ráðherra. Ég skynja metnað af hálfu allra stjórnmálaflokka hér í þinginu til þess að gera betur á sviði afreksíþrótta. Það skilar sér þvert í gegnum samfélagið niður í skólakerfið og inn í skólakerfið, upp og niður og hvar sem er. Ég hvet okkur eindregið til að sameinast um að koma með afurð sem tengist því að efla afreksíþróttir í landinu. Nú er lag.