141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum og tollalög.

272. mál
[16:44]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi álit umboðsmanns Alþingis, og síðar Héraðsdóms Reykjavíkur, þá er það í sjálfu sér ekki ákvörðun um það hvort beitt sé magntollum eða verðtollum sem umboðsmaður gerði meginathugasemdirnar við, og/eða Héraðsdómur Reykjavíkur lagði til grundvallar dómi sínum, heldur fyrst og fremst hin matskenndu ákvæði laganna og það framsal sem er í þeim skilningi á skattlagningarvaldi. Það eru sem sagt lögin sjálf frá 1995 sem fá þennan áfellisdóm ekki síður en umdeilanleg framkvæmd, svo að því sé til haga haldið. Eftir dúk og disk er niðurstaðan orðin sú að þarna var ekki um nægilega vandaða eða skýra lagasetningu að ræða og þessar matskenndu heimildir í tollalögum og í lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum voru sem sagt ekki nægilega vel úr garði gerðar.

Við höfum breytt framkvæmdinni til að skapa betri frið um þessi mál og að sjálfsögðu er ætlunin að reyna að standa að því að uppfylla skuldbindingar Íslands eins og þær eru í samningunum við Alþjóðaviðskiptastofnunina með góðri og vandaðri stjórnsýslu á grunni réttra laga.

Varðandi framboð á vörum þá er að mínu mati veruleg framför fólgin í þessu frumvarpi hvernig menn nálgast það mál, t.d. með því að afla mun viðameiri upplýsinga um framboð á markaði og meta það fyrir fram, byggja alltaf a.m.k. á mati tveggja ótengdra dreifingaraðila og safna upplýsingum sömuleiðis frá minnst tveimur ótengdum aðilum til að meta stöðu á markaðnum.