141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum og tollalög.

272. mál
[16:46]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ítreka þá spurningu mína hver það er sem metur að nægilegt magn af landbúnaðarvöru sé til staðar á markaði. Hver metur hvaða magn er nægjanlegt aðrir en neytendur sjálfir? Hver metur það í ráðuneytinu, eða hvar það er í stjórnkerfinu, hverjar eru þarfir neytenda? Það er fyrsta spurningin.

Mig langar líka til þess að vita hvort ráðherra ætli að úthluta hið fyrsta því magni sem forveri hans í stóli landbúnaðarráðherra kom í veg fyrir að íslenskir neytendur ættu kost á með ákvörðun sinni sem hefur verið hrakin?

Síðan langar mig að vita hvort hæstv. núverandi ráðherra hafi stutt forvera sinn í embætti í ríkisstjórn, því þeir sátu saman í ríkisstjórn, og þá um leið ákvörðun hans til þess að breyta úr magntollum yfir í verðtolla. Sem betur fer erum við að breyta því til baka núna í þágu neytenda og í þágu samkeppni. Það væri ágætt að fá svar við þessu. Öðrum atriðum mun ég koma að í eigin ræðu á eftir.