141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

228. mál
[17:14]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu sem er að finna á þskj. 239, þetta er 228. mál þingsins. Tillagan er nú flutt í annað sinn. Að henni standa 17 þingmenn úr öllum flokkum og hreyfingum innan þings, utan Sjálfstæðisflokksins.

Markmið tillögunnar er að þegar verði hafist handa við að aðskilja hefðbundna viðskiptabankastarfsemi og áhættusama fjárfestingarbankastarfsemi hér á landi. Flutningsmenn telja að nú sé lag. Fjárfestingarbankastarfsemi er enn lítil í íslensku bönkunum, talin vera um 5%, en var komin upp í um og yfir 30% við hrun og benda flutningsmenn á að þess vegna muni aðskilnaður ekki verða bönkunum dýr, þetta sé einföld aðgerð og hún muni ekki heldur hafa truflandi áhrif á starfsemi bankanna.

Síðast en ekki síst teljum við flutningsmenn tillögunnar að rétt sé að ganga þetta skref nú til fulls áður en fjárfestingarbankastarfsemi tekur aftur öll völd í íslensku bankakerfi en ljóst er að þótt hún sé lítil enn sem komið er fer hún vaxandi.

Í tillögugreininni felst að bankamálaráðherra skipi nefnd sem fari yfir starfsemi bankanna og fjármálamarkaðarins í því skyni til að aðskilja þessa starfsemi, líti til nágrannalandanna hvað er að gerast þar og skili niðurstöðu eigi síðar en 1. febrúar næstkomandi. En ljóst er af því sem gerst hefur á undanförnum dögum að það þarf kannski alls ekki svo langan tíma. Það gæti verið að hægt væri að vinna þetta verk miklum mun fljótar vegna þess hver þróunin hefur orðið bara frá því þessi tillaga var lögð fram nú öðru sinni í haust.

Til hvers að aðskilja þessa starfsemi, kynni nú einhver að spyrja? Aðskilnaður þessara tveggja ólíku tegunda fjármálastarfsemi er af flestum talin muni minnka hefðbundna kerfisbundna áhættu í fjármálakerfinu fyrir þjóðarbúið. Sumir benda auðvitað á að aðskilnaður leysi ekki allan vanda sem fjármálakerfi getur valdið í efnahagslífinu og heldur ekki allan þann vanda sem fjármálakerfið á við að stríða. En aðrir benda á að þetta sé algjör forsenda fyrir stöðugleika í efnahagslífinu og fyrir heiðarlegt viðskiptalíf. Með aðskilnaði er nefnilega tryggt að sparifé almennings verði ekki aftur nýtt sem spilapeningar í áhættusömum útlánum og fjárfestingum bankaeigenda. Með aðskilnaði er komið í veg fyrir að baktrygging ríkisins á venjulegum innlánum, sem sagt sparnaði, verði misnotuð aftur, þannig að tap af á áhættusömum viðskiptum með útlánum og fjárfestingum falli ekki aftur á skattgreiðendur og ríkissjóð.

Frú forseti. Hefðbundinn sparnaður sem lagður er á banka til ávöxtunar, venjuleg innlán og útlán til heimila og fyrirtækja, flokkast undir venjulega bankastarfsemi. Þau innlán eru eins og við þekkjum baktryggð með einhverjum hætti með ríkisábyrgð. Þegar saman fara slík baktryggð innlán, spákaupmennska og áhættumiðuð fjárfestingarstefna, verður til eitruð blanda sem getur lagt og hefur lagt heilt fjármálakerfi í rúst með alvarlegum afleiðingum fyrir heimili og ríkissjóð, afleiðingum sem við þekkjum svo vel hér á landi.

Það er enginn vafi í huga þeirra sem mest hafa skoðað þetta að rekja megi afleiðingar bankahrunsins hér á landi m.a. til þess sem ég kalla hér eitraða blöndu.

Í skýrslu sem hv. þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra lagði fram í apríl sl. á 140. þingi um framtíðarskipan fjármálakerfisins er fjallað um þennan aðskilnað á bls. 84–85. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á því leikur ekki vafi að einmitt óheppileg tengsl milli innlánsstarfsemi og fjárfestingarstarfsemi átti snaran þátt í rótum kreppunnar 2008. Rannsóknarnefnd Alþingis komst einnig að þeirri niðurstöðu að íslenskir bankar hefðu í auknum mæli snúið sér að fjárfestingarbankastarfsemi í aðdraganda hrunsins.“

Þar segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Það er mikilvægt að fylgjast grannt með framvindu þessa máls á alþjóðavettvangi áður en ákvarðanir eru teknar hér á landi um róttækar breytingar á skipulagi banka og annarra fjármálafyrirtækja. Einsætt virðist að efla megi fjármálastöðugleika með skýrari greinarmun á þessum tveimur þáttum bankastarfseminnar. Sem stendur eru hættumerki um óheppileg tengsl þessara tveggja starfsþátta ekki sérstakt áhyggjuefni í hinu nýendurreista fjármálakerfi hér á landi.“

Ég vek athygli á því að ég er að vitna hér til skýrslu sem lögð var fyrir þingið í apríl sl. Þar segir sem sagt að ekki sé hættumerki „í hinu nýendurreista fjármálakerfi hér á landi“. Síðan segir að lokum, með leyfi forseta:

„Í ljósi dýrkeyptrar reynslu er ástæða til að vera vel á verði og útiloka ekki aðgreiningu eða aðskilnað þessara starfsþátta sem framtíðarfyrirkomulag, ekki síst ef þróunin stefnir í þá átt á alþjóðavísu.“

Í greinargerð með tillögunni — hún er býsna löng, frú forseti, ég hyggst nú ekki fara yfir hvert atriði í henni, hún er einar fimm blaðsíður — er rakið hvernig fullkominn aðskilnaður þessara tveggja þátta bankastarfsemi var tryggður í Bandaríkjunum eftir hrun kauphallarinnar í New York og í kjölfar heimskreppunnar sem fylgdi. Svokölluð Glass-Steagall-lög voru í gildi frá árunum 1933–1999 og fjármálakerfi heimsins fylgdu í fótspor Bandaríkjamanna í því efni, en á árinu 1999 var þeirra ekki lengur talin þörf í Bandaríkjunum. Þau voru afnumin og það tók aðeins innan við tíu ár fyrir nýja bankabólu að springa á árunum 2007–2008 frá því fjármálastofnunum var aftur heimilað að blanda saman viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi á nýjan leik.

Það er ljóst að nýjasta bankahrunið hefur kallað á endurmat beggja vegna Atlantsála um þessi atriði eins og rakið er í greinargerðinni, en þar er stiklað á stóru í þróuninni hvað varðar Bandaríkin, Bretland og Evrópuríkin, en einnig tekið fyrir umfjöllunin hér á landi.

Í stuttu máli má fullyrða að hugmyndum um aðskilnað á nýjan leik í anda Glass-Steagall-laganna hefur vaxið fylgi um allan hinn vestræna heim. Tregða bankakerfisins og meðfædd íhaldssemi fjármálalífsins, sérstaklega í Bretlandi, hefur hins vegar orðið til þess að margir leita annarra leiða en fullkomins aðskilnaðar og vilja fremur reisa svokallaðar girðingar innan sama fjármálafyrirtækis, þ.e. girða af og gera sérstaklega upp þessa áhættusömu starfsemi, sem allir eru sammála um að megi ekki blanda saman við venjulega bankastarfsemi, eða jafnvel setja fjárfestingarbankastarfsemi í sérstakt fyrirtæki ef hlutfall af rekstri fjármálastofnunarinnar er yfir tilteknu hámarki.

Þetta er mikið deiluefni og umræðuefni í Evrópu nú um stundir. Margir áhrifamenn í bankalífi vara við því að menn ætli sér ekki að ganga alla leið og útvatna tillögur sem fram hafa komið um aðskilnað. Takmarkandi reglur hafa þegar verið lögleiddar í Bandaríkjunum kenndar við Paul Volcker, fyrrverandi seðlabankastjóra Bandaríkjanna, en í Bretlandi er staðan sú að tillögur nefndar sem kenndar eru við John Vickers, um að fjármálastofnunum verði leyft að sinna í senn viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi í aðskildum deildum innan sama bankans, hafa verið útvatnaðar verulega í frumvarpi sem hefur verið lekið til fjölmiðla. Um það standa miklar deilur. Hins vegar eru þær tillögur þannig að ekki er gert ráð fyrir að þær taki gildi fyrr en á árinu 2019.

Eins og ég sagði hafa drög að frumvarpi sem byggt er á tillögum hinnar óháðu bankanefndar John Vickers í Bretlandi lekið til fjölmiðla. Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt það harðlega hversu útvatnaðar tillögurnar eru orðnar í meðförum ríkisstjórnarinnar er Mervyn King, seðlabankastjóri Breta, og Sir John Vickers sjálfur, sem var formaður nefndarinnar. Í leiðara Financial Times í síðustu viku er tekið undir þá gagnrýni um útvötnun tillagnanna. Þetta er mikið hitamál í breskri pólitík og Ed Miliband, formaður breska Verkamannaflokksins, hefur lýst því yfir að ef bankarnir breyta ekki stefnu sinni og menningu verði þeim skipt með lagaboði komist Verkamannaflokkurinn til valda eftir næstu kosningar. Þessi harða umræða byggir kannski ekki síst á umræðunni um LIBOR-hneykslið svokallaða í Bretlandi. Ed Miliband segir að banka eigi ekki að „reka eins og spilavíti“ heldur eigi þeir að „einbeita sér að kjarnastarfsemi svo sem lánum til viðskiptavina sinna“. Það er svo sannarlega ástæða til að taka undir það.

Ég vil, frú forseti, minna á að 2. október sl. skilaði nefnd undir forustu finnska seðlabankastjórans, Erkki Liikanens, tillögum um þessi málefni. Nefndin leggur til að fjárfestingarstarfsemi sem er yfir tilteknum mörkum miðað við stærð bankans skuli skilin frá hefðbundinni bankastarfsemi og vera á hendi sérstaks lögaðila eða félags en innan sömu samsteypu. Það er sem sagt ekki lagður til fullkominn aðskilnaður í anda Glass-Steagall-laganna. Þarna er fylgt svipuðum leiðum og farnar hafa verið í Bandaríkjunum og tillögur eru uppi um í Bretlandi.

Frú forseti. Í greinargerðinni er það rakið hvað varðar útlán til tengdra aðila og glæfralegar og óarðbærar fjárfestingar í fyrirtækjum sem voru nátengd eigendum þessara sömu fjármálastofnana, hvernig spilað var með tryggð innlán með þeim afleiðingum sem við hér þekkjum. Þegar á árinu 2010 töldu margir þingmenn hér í þessum sal brýnt að taka af skarið um stefnu stjórnvalda í þessum efnum og banna að hefðbundin viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi væri rekin í sama félaginu. Meiri hluti viðskiptanefndar komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að það væri ekki rétt að svo komnu máli á árinu 2010 að leggja í slíkar breytingar. Vildu menn þá bíða eftir því hvað gerðist í öðrum löndum.

Eins og ég nefndi áðan var í skýrslunni sem við fengum í vor fjallað um kosti og galla þess að aðskilja fjárfestingarbankastarfsemina frá viðskiptabankastarfseminni. Það er ljóst að orðalagið í þeirri skýrslu olli talsverðum vonbrigðum, alla vega þeirrar sem hér stendur, enda þótt þar sé alveg tekið undir það hversu stóran hluta ábyrgðarinnar á bankahruninu má rekja til þessa samspils.

Á umræðuþingi sem Félag hagfræðinga og viðskiptafræðinga hélt í byrjun september lýsti forstjóri Fjármálaeftirlitsins því yfir að henni fyndist „ekki alveg tímabært að svo stöddu“ að aðskilja þessa þætti og vísaði hún þar til vinnu nefndar á vegum Evrópusambandsins. Ljóst má því vera að Fjármálaeftirlitið mun ekki hafa frumkvæði að breyttu regluverki hvað þetta varðar. Þá hefur greiningardeild Arion banka varað við því að Íslendingar taki þetta skref.

Frú forseti. Það nýjasta sem gerst hefur í þessu máli er að núna í vikunni skilaði þriggja manna nefnd skýrslu, sem hv. bankamálaráðherra skipaði síðastliðið vor þar sem átti að skoða heildarumgjörðina í bankakerfinu hér. Þar er fjallað um aðskilnað, en því miður er svo vægt til orða tekið að aðeins er sagt að það eigi að athuga „gaumgæfilega hvort krefjast skuli lagalegs aðskilnaðar tiltekinna sérlega áhættusamra starfsþátta frá þeim rekstri bankanna sem tekur við innlánum ef þeir starfsþættir eru verulegur hluti af rekstri banka.“ Þarna er sem sagt tekin sama lína og er í Evrópusambandinu.

Hins vegar hefur bankamálaráðherra, hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sagt að hann telji að ganga eigi lengra í þessum efnum.

Frú forseti. Tillögur Liikanen-nefndarinnar fara nú í langvinnt ferli umsagna og ráðslags og ljóst er að það mun taka langan tíma áður en þær verða að veruleika og þær kunna að verða útvatnaðar verulega á þeirri vegferð eins og gerst hefur og er að gerast með bresku tillögurnar.

Við hér á Íslandi höfum hins vegar einstakt tækifæri núna til þess að stíga þetta nauðsynlega skref til fulls. Það er nauðsynlegt að mati flutningsmanna þessarar tillögu að Alþingi taki af skarið og segi hug sinn í þeim efnum. Þess vegna er þessi tillaga flutt.