141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

228. mál
[17:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu um þessa tillögu til þingsályktunar sem hún flytur ásamt fleiri þingmönnum. Það er orðin einhver árátta, og hefur svo sem verið frá því að þessi ríkisstjórn tók við fyrir tæpum fjórum árum, að kenna Sjálfstæðisflokknum um allt, nefna hann alltaf til sögunnar sem einhvern blóraböggul og einhvern til að skamma.

Hv. þingmaður hélt þeirri reglu rétt áðan í ræðunni, sagði að hér væru þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum. En það vill svo til að Sjálfstæðisflokkurinn hefur flutt efnahagstillögur í tvígang eða þrígang og þetta atriði er þar inni. Það er ástæðan fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki jafnframt á þessari tillögu, hann er þegar með þetta í efnahagstillögum sínum. Þegar þetta mál var lagt fram nýverið var ég ekki spurður hvort ég vildi vera meðflutningsmaður.