141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

228. mál
[17:33]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði nú frekar kosið að andsvör og að þessi stutta umræða hefði fjallað um efni tillögunnar sem við ræðum. Ég vek athygli á því að á morgun, vonandi snemma dags, fáum við tækifæri til að ræða þingsályktunartillögu um rannsókn á einkavæðingu bankanna, það er þeirri sölu sem hv. þingmaður nefndi hér og rakti til Sjálfstæðisflokksins en aðrir kjósa að kalla einkavinavæðingu. Við munum væntanlega komast að því hver áhrif hennar voru, til hvers hún var gerð, hverjum hún gagnaðist og hvar hún endaði, að þeirri rannsókn lokinni.

Ég get hins vegar tekið undir það með hv. þingmanni að það var gamalt og er algjörlega úrelt viðhorf að skipa stjórnmálamenn í bankaráð banka, fjármálastofnana eða hlutafélaga. Það er liðin tíð sem betur fer, ég tek undir það. En við skulum ræða þennan stutta tíma þá tillögu sem hér liggur fyrir um að aðskilja fjárfestingarbankastarfsemi og venjulega viðskiptabankastarfsemi til að við getum eignast heilbrigðara fjármálalíf. Við skulum tala um einkavæðingu á bönkum við annað tækifæri.