141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

228. mál
[17:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Skorað var á mig að ræða þessar tillögur efnislega, ég get alveg gert það.

Þarna togast á tvenn sjónarmið, eins og alltaf, það eru alltaf tvær hliðar á medalíunni. Annars vegar er það að íslenskt atvinnulíf er mjög lítið. Ef við mundum, eins og þessi tillaga gerir ráð fyrir, aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarbanka yrðu einingarnar, sérstaklega á fjárfestingarbankasviðinu, mjög litlar og verða þar af leiðandi verr til þess fallnar að taka á þeirri áhættu sem myndast í slíkri starfsemi. Þetta er eitt sjónarmiðið.

Hitt sjónarmiðið er að það fer illa saman að taka fé sem maður aflar með sparnaði og ráðdeild, þ.e. innlán, og blanda því saman við hasar og áhættu, sem er fjárfestingarstarfsemi. Og þegar þetta er í einu fyrirtæki er það í rauninni þannig að innlánin eru að veði fyrir spennunni og áhættunni. Það fer bara ekki vel saman, frú forseti. Ég hef flutt um það margar ræður í gegnum tíðina og spurt hvað það þýddi þegar sett var inn í lögin á sínum tíma að bankar mættu eiga hlutabréf til skamms tíma. Hvað þýðir skammtími? spurði ég mörgum sinnum en fékk aldrei svar.

Ég hallast að því og er sammála því í tillögunni um að aðskilja skuli viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Og ég gæti alveg hugsað mér að styðja hana. Auðvitað þarf að leita umsagna og svo skoðar maður umsagnirnar. Ef þær benda á að þetta sé ekki skynsamlegt af einhverjum ástæðum gæti ég endurskoðað þá afstöðu.

Við fyrstu sýn er ég sammála tillögunni og hefði alveg getað verið á henni þess vegna.

Ef ég ætlaði að fara í einhverjar skotgrafir, eins menn tíðka hérna, er greinargerðin með tillögunni mjög gagnrýnin á einmitt starfsemi hæstv. ríkisstjórnar, hvað hún hefur verið hægfara í málinu og hvað hún hefur lítið gert. Hún er búin að vera hérna í fjögur ár, eða tæp fjögur ár, en ég ætla ekki að hengja mig í það. Mér finnst miklu betra að menn ræði málefnalega um þessi mál. Er skynsamlegt að hafa þetta eða ekki?

Svo vil ég benda á að nú er yfirlýsing frá ráðherra, þetta er yfirlýsing, um að allar innstæður séu tryggðar. Hún hefur verið endurtekin aftur og aftur, en það er ekki sama og ríkisábyrgð, ég vil koma því á framfæri, og ég hef meira að segja fengið það staðfest frá hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra.

Ég hef líka lagt til að innstæður yrðu tryggðar með þeim hætti að Alþingi samþykkti til dæmis 100 milljarða ríkisábyrgð sem yrði svo boðin út til bankanna. Þeir gætu þá boðið í innstæður með raunverulegri ríkisábyrgð, en þeir yrðu þá að borga fyrir það og væntanlega yrðu þá vextirnir sem því næmi lægri á þeim innstæðum en á öðrum innstæðum. Þá væri líka alveg á hreinu hvaða innstæður væru með ríkisábyrgð og hvaða innstæður væru ekki með ríkisábyrgð. Fyrir þessa ríkisábyrgð mundi ríkissjóður að sjálfsögðu taka gjald og hann mundi líka krefjast trygginga.

Það eru því ýmsar leiðir til að leysa þetta en á meðan þetta er ekki leyst finnst mér mjög slæm blanda að blanda saman því öryggi sem innstæður krefjast og þeirri áhættu sem fylgir fjárfestingarbankastarfsemi.