141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

39. mál
[17:54]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið. Mig langar í upphafi máls að lýsa því aðeins hvernig svona mál verður yfirleitt til því að það er svolítið merkilegt að fara yfir það.

Málið felur ýmislegt í sér. Það felur í sér þrjú meginatriði: Í fyrsta lagi að heimila megi að hafa fánann uppi á nóttunni yfir bjartasta tímann á sumrin, það er ein breytingin. Í öðru lagi er verið að breyta því að það megi nota fánann á íslenskar vörur í markaðssetningarskyni. Í þriðja lagi er lagt til, reyndar ekki í málinu sjálfu, að flutt verði breytingartillaga af þeirri er hér stendur sem lýtur að því að hafa megi fánann uppi á nóttunni allan ársins hring sé hann með lýsingu.

Aðeins varðandi það hvernig þetta mál varð til þá fór sú er hér stendur 10. mars 2010 á fund hjá Kiwanisklúbbnum Hraunborg í Hafnarfirði, en hv. þingmenn eru mjög oft á fundum hjá alls kyns félagasamtökum úti í bæ og lýsa þar einhverju í starfi sínu o.s.frv. Þar er ég að flytja ræðu og fæ spurningu eftir ræðuflutninginn er lýtur að fánalöggjöfinni. Einn klúbbfélagi er að velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að heimila að hafa fánann uppi allan sólarhringinn á sumrin því að viðkomandi gleymdi svo oft að taka hann niður í sumarbústaðnum og fannst það óþægilegt og leiðinlegt að lögreglan þyrfti að koma og banka upp á og biðja hann um að taka fánann niður. Ég ákvað um hæl að gera skoðanakönnun í þessum klúbbi og spurði bara: Hverjir í þessum sal eru tilbúnir að styðja það að hafa megi fánann uppi allan sólarhringinn á sumrin? Meiri hlutinn í salnum rétti upp hönd. Ég skoðaði þetta mál því betur í framhaldinu og þess vegna er ákvæði hér um þetta. Ég flutti þingsályktunartillögu um það tvívegis. Hún var ekki samþykkt en nú er ég búin að breyta þessu í lagafrumvarp.

Bændasamtök Íslands hafa ályktað nokkrum sinnum um að það eigi að breyta fánalöggjöfinni þannig að nota megi íslenska fánann á íslenskar vörur til að þær seljist betur. Ég skoðaði það líka og áttaði mig þá á því að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir flutti slíkt mál. Ég var einmitt með fyrirspurn um það. Mál hæstv. ráðherra var ekki samþykkt og hæstv. ráðherra endurflutti það ekki á þessu þingi þannig að ég tók það mál upp á mínar herðar líka enda mikill stuðningsmaður þess og eru ákvæði um það í þessu frumvarpi að heimila notkun þjóðfánans á íslenskar vörur í markaðsskyni.

Þegar ég skoðaði frekar hvað fáninn mætti vera lengi uppi á nóttunni á sumrin þá hafði samband við mig í gegnum tölvupóst Sigurður Jónsson sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu en vinnur núna sem framkvæmdastjóri RR-SKILA – skilakerfis fyrir raf- og rafeindatækjaúrgang um allt land. Hann spurði hvort ekki væri rétt að setja þetta allt í lagafrumvarp, þá líka hvenær mætti hafa fánann á lofti á nóttunni á sumrin, en ekki í þingsályktunartillögu. Mér fannst það snjöll leið þannig að ég ákvað að gera það.

Núna 5. september í ár, sem sagt ekki fyrir löngu síðan, hitti ég Sigurð Jónsson sem er mjög mikill áhugamaður um fánann ásamt hópi fólks sem hann hafði smalað saman. Það er því sprottinn upp áhugahópur um fánamál á Íslandi. Þarna var fólk frá ýmsum samtökum og ef ég fer rétt með þá voru þessir aðilar frá UMFÍ og ÍSÍ, Félagi atvinnurekenda, Íslandsstofu, Samtökum iðnaðarins og Bandalagi íslenskra skáta. Þarna var líka hv. þm. Lúðvík Geirsson sem er mikill áhugamaður um fánamál. Þessi hópur settist yfir málið og til varð með aðstoð þingsins frumvarp sem ég er hér að mæla fyrir. Það er svolítið merkilegt hvernig svona mál koma upp, hver kveikjan er og hvernig þau breytast í meðförum bæði þings og að einhverju leyti þjóðar af því að það koma þarna aðilar frá þessum samtökum öllum og hafa áhrif á málið.

Eftir að ég fór að kynna mér gögn um fánamál áttaði ég mig á því að það er ein breytingartillaga sem vert væri að gera við þetta mál sem er ekki í frumvarpinu og það er að heimila eins og er í Danmörku og Svíþjóð að hafa fána uppi allan sólarhringinn, sem sagt á nóttunni líka þótt það sé myrkur, ef hann er upplýstur og þá væntanlega með ljóskösturum. Við eigum mikið af rafmagni þannig að þetta væri mjög auðvelt og gæti verið mjög fallegt og skemmtilegt. Ég vara þingið við því núna að ég mun flytja breytingartillögu á þessum nótum við 2. umr. þessa máls. Ég vona að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem mun fjalla um þetta mál átti sig á því að það er komin breytingartillaga og geti jafnvel skoðað hana samhliða þessu máli. Svona var aðdragandinn að málinu.

Það er líka við hæfi fyrst ég er að flytja þetta mál að vekja máls á íslenska fánanum sem er hér í þingsal. Ég rannsakaði hvernig fánar vestnorrænu ríkjanna rötuðu í þingsali þeirra. Margir halda að íslenski fáninn sem prýðir þingsalinn hafi verið hér mjög lengi en svo er alls ekki. Hann hefur einungis hangið hér í rétt rúm fimm ár, kom í lok september 2007 og sást fyrst opinberlega 1. október 2007 þegar þingið var sett. Hann var settur í salinn 28. september 2007. Þegar ég lagðist í þessar rannsóknir skoðaði ég þessi þrjú lönd: Grænland, Ísland og Færeyjar. Það er mjög merkilegt þegar maður skoðar þau að átta sig á því að Ísland kom alls ekki fyrst með íslenska fánanum í þingsal af þessum löndum. Það voru Grænlendingar. Þeir eiga fána sem heitir Erfalasorput og voru fyrstir að setja fánann sinn upp í þingsal af þessum vestnorrænu löndum. Það er ekki til mikið af gögnum um það mál. Ég hafði samband við grænlenska landsþingið á sínum tíma þegar ég var að skoða þetta og náði í Jonathan Mosfeldt heitinn, sem var forsætisráðherra Grænlendinga lengi og líka formaður fyrir grænlenska landsþingið, og hann tjáði mér, auk þess sem ég fékk upplýsingar frá landsþinginu sjálfu, að forsætisnefnd grænlenska þingsins hefði ákveðið að setja grænlenska fánann í salinn. Þeir fengu fánann afhentan frá fánasamtökum í Grænlandi í september 1988 þannig að það eru 24 ár síðan Grænlendingar settu fánann inn á landsþing sitt í Nuuk. Þeir gerðu það ekki með atkvæðagreiðslu eða málflutningi í þingsal heldur ákvað forsætisnefndin það bara, það var svo sjálfsagt. Síðan hefur grænlenski fáninn hangið í grænlenska þingsalnum.

Við komum næst í röðinni og tókum málið upp hér í þingsal. Þáverandi hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson lagði þrívegis fram tillögu á þingi um að þjóðfáni Íslendinga ætti að vera í þingsalnum. Þegar við greiddum svo atkvæði um það mál 17. mars 2007 sögðu 43 já, sjö sátu hjá og níu voru fjarverandi. Ég sagði já, en ég man ekki hvaða sjö sátu hjá en mér segir svo hugur að núna vilji enginn taka þjóðfánann úr þingsalnum, ég held að það séu allir mjög ánægðir með það að þjóðfáni Íslendinga prýði þingsalinn og finnist það algerlega við hæfi. Hann er til mikillar prýði, við höfum verið mjög stolt af honum og getum eiginlega ekki hugsað okkur þingsalinn án þjóðfánans í dag. Það var sem sagt 2007 sem við gengum frá þessu í atkvæðagreiðslu. Það var ekki hlaupið að því, það þurfti þrívegis að flytja þessa tillögu og fyrrverandi hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson á mikinn heiður skilinn fyrir framgöngu sína í því máli og frumkvæði.

Við gleymdum reyndar 1. október 2012 að halda upp á fimm ára afmæli þjóðfánans í þingsal. Við hefðum betur gert það með köku og kaffi en kannski gerum við það þegar tíu ára afmælið rennur upp eftir fimm ár.

Síðan voru það Færeyingar. Ég var reyndar viðstödd um það leyti þegar þeirra fáni, þ.e. merkið sem er nafn færeyska fánans, kom í lögsalinn hjá þeim í Þórshöfn í fyrsta sinn 19. janúar 2010. Tveir þingmenn þeirra höfðu forgöngu um það, Kári P. Höjgaard og Kári á Rógvi. Þeir lögðu fram mál. Það var bara lagt fram einu sinni og var samþykkt. Ellefu færeyskir þingmenn sögðu já, átta sögðu nei og fimm sátu hjá þannig að það voru talsverðar deilur um það í Færeyjum hvort færeyski fáninn ætti að fara inn í þingsalinn en hann fór þangað inn og prýðir sal þeirra núna.

Þetta var útúrdúr í þessu máli en mér fannst við hæfi að rifja þessa sögu upp af því að íslenski fáninn er hérna beint fyrir aftan þegar þessi ræða er flutt og rétt að fólk fái aðeins bragð að því hvernig hann kom hingað inn og hvernig þessi mál hafa skipast í nágrannalöndum okkar í vestnorðri.

Varðandi frumvarpið sem hér er flutt þá er það þrjár greinar. Þetta er ekki umfangsmikið frumvarp að því leytinu til. Fjórir hv. þingmenn eru flutningsmenn, þ.e. sú er hér stendur og hv. þingmenn Lúðvík Geirsson, Árni Johnsen og Álfheiður Ingadóttir. Það eru sem sagt fulltrúar frá öllum flokkum nema Hreyfingunni sem standa að frumvarpinu.

Í 1. gr. er komið inn á hina almennu reglu um að fánann skuli ekki draga á stöng fyrr en kl. 7 að morgni og að jafnaði skal hann ekki vera uppi lengur en til sólarlags og aldrei lengur en til miðnættis. Þetta er hin almenna regla. Síðan kemur viðbótin sem er sú breyting að þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr. megi fáni vera uppi allan sólarhringinn frá 15. maí til 15. ágúst ár hvert. Þarna kemur breytingin um að hann megi vera uppi allan sólarhringinn yfir hásumarið. Þá getur fólk verið alveg rólegt, ef þetta verður samþykkt, og þarf ekki að draga fánann niður á kvöldin og nóttunni yfir hásumarið. Ég held að þetta muni stórauka notkun á fánanum, sérstaklega á sumrin.

Í 2. gr. er efnisgreinin um að nota fánann í markaðsskyni á vörur. Þar er sagt að heimilt sé að nota hinn almenna þjóðfána í vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu, enda sé vara eða starfsemi sú sem í hlut á íslensk að uppruna og fánanum ekki óvirðing gerð.

Svo kemur síðar, með leyfi forseta:

„Ráðuneytið veitir leyfi fyrir notkun þjóðfánans í vörumerki sem skal skrásetja.“ — Þetta á bara við um vörumerki. Það þarf leyfi til þess hjá ráðuneytinu.

Síðan koma tvær nýjar málsgreinar og þær eru á þessa leið, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um nánari skilyrði fyrir notkun fánans samkvæmt ákvæði þessu.

Ráðherra sker úr um álitaefni og ágreining sem upp kann að koma um leyfilega notkun fánans samkvæmt ákvæði þessu.“

Þetta er talsverð breyting. Menn hafa áður reynt að gera þessa breytingu en það tókst ekki. Það var vegna þess að þá voru sett lög um að auka mætti frjálsræði um notkun fánans og að sérstaklega ætti að taka tillit til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu. Á þeim tíma, þegar þessi tilraun var gerð, sem mistókst, fylgdi tillaga að reglugerð frumvarpinu en hún var aldrei sett vegna þess aðallega að örðugt reyndist að skilgreina hlutlægar gæðaviðmiðanir sem nýst gætu til að uppfylla þetta skilyrði laganna á viðunandi hátt. Það hefur ekki verið hægt að verða við beiðnum um sérstakt leyfi til að nota fánann þannig. Menn gáfust hreinlega upp á því að skilgreina gæði á vöru til að mega nota fánann.

Hins vegar hafa Danir náð að gera þetta. Þeir nota þjóðfánann mjög mikið í markaðssetningu á dönskum vörum en þeir þurfa ekkert sérstakt leyfi. Þar er því mikið frjálsræði. Danir telja að þetta hafi haft gríðarlega jákvæða þýðingu fyrir danska framleiðslu, sérstaklega í landbúnaði.

Hér er sú leið farin, virðulegi forseti, til að reyna að gera þetta sem einfaldast og skýrast að sneiða hjá þessum skilyrðum um gæði. Ég ætla að lesa upp úr greinargerðinni af því að hún er svolítið lýsandi varðandi það hvernig á að gera þetta. Lýsingin er svona, með leyfi forseta:

„Ákvæði 4. mgr. 12. gr. laganna fjallar meðal annars um heimild til notkunar á fánanum á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu. Sú breyting er gerð á málsgreininni að í stað þess að leyfi þurfi hjá forsætisráðuneyti til notkunar fánans í þessum tilgangi er heimildin orðin almenn en að uppfylltum skilyrðum. Þá er fellt brott það skilyrði að starfsemi sú sem í hlut á sé að gæðum samkvæmt því sem ráðuneytið mælir fyrir um með reglugerð. Í staðinn segir að starfsemi sú sem í hlut eigi sé „íslensk að uppruna“ og áfram þarf hún að vera þannig að fánanum sé ekki óvirðing gerð. Markmið þessarar breytingar er að auka möguleika á notkun fánans, íslenskri framleiðslu og þjónustu til framdráttar. Þrátt fyrir að skilyrði um gæði sé fellt brott er sú krafa eðli máls samkvæmt áfram til staðar, samofin því að fánanum sé ekki óvirðing gerð. Sama á við um orðalagið „íslensk að uppruna“. Orðalagið er nýtt í lögunum og leggur þær skyldur á herðar þeim sem nota fánann að það sé ekki gert á röngum forsendum eða villandi máta. Þannig má gera ráð fyrir að það feli í sér að matvæli teljist íslensk að uppruna ef til dæmis grænmeti og ávextir eru ræktaðir hér á landi, kjöt er af íslenskum húsdýrum eða villibráð og mjólkurvörur úr íslenskri mjólk. Ekki nægi að vörurnar séu innfluttar en pakkað hér á landi. Öðru máli kann að gegna um annan varning sem geti vel talist íslenskur þótt úr erlendu hráefni sé, t.d. framleiðslu á íslenskri hönnun, húsgögnum eða fatnaði o.s.frv. Þá er lagt til að forsætisráðherra fái sérstaka heimild til að setja nánari reglur um skilyrði fyrir notkun fánans samkvæmt ákvæðinu og tiltekið að það sé hlutverk forsætisráðherra að skera úr um álitaefni og ágreining sem upp kann að koma um leyfilega notkun fánans samkvæmt framangreindu.“

Þarna er verið að setja þær skyldur að vara sem á að merkja á að vera íslensk að uppruna og á ekki að óvirða fánann. Að sjálfsögðu hljóta að koma upp ýmis álitaefni og þess vegna getur forsætisráðherra sett reglugerð ef hæstv. ráðherra telur það nauðsynlegt en að minnsta kosti á forsætisráðherra að skera úr ágreining að þessu leyti. Það getur vel verið að það komi til kasta dómstóla að greina þarna á milli. Hvenær er vara íslensk? Hvenær er hægt að sameinast um það að hún sé íslensk? Hvenær er fánanum gerð óvirðing? Eru einhverjar vörur sem við viljum alls ekki setja íslenska fánann á o.s.frv.? Þetta er vandinn í málinu. Við teljum að unnt sé að skera úr um þetta og að stundum þurfi dómstólar að koma til ef svo ber undir þannig. Við teljum vert að auka frjálsræðið varðandi notkun fánans á þennan hátt, að það sé miklu betra en hafa þetta eins og það er í dag, að menn megi ekki nota fánann. Að vísu má nota fánaborða í dag en við viljum að hægt sé að nota fánann í réttum hlutföllum á vöru. Þetta er meginefni þessa máls, þ.e. að auka notkun á fánanum, auka frjálsræði varðandi að nota hann á íslenskar vörur.

Síðan er ákvæði til bráðabirgða. Þar er lagt til að til 31. desember 2013, sem er rúmlega eitt ár héðan í frá, skuli ráðuneytið, þ.e. forsætisráðuneytið, standa að sérstakri kynningu nýrra reglna um notkun þjóðfánans hjá almenningi og fyrirtækjum með það að markmiði að notkun fánans aukist og verði í samræmi við ákvæði laganna og reglur settar á grundvelli þeirra. Hér er verið að biðja um að sérstök kynning verði á þessum nýju reglum þannig að almenningur átti sig vel á þeim og fyrirtækin sem geta þá notað fánann á íslenskar vörur sínar.

Við teljum líka mikilvægt, og ég hef velt því fyrir mér og mun jafnvel undirbúa slíkt, að flytja sérstaka þingsályktunartillögu um það að hæstv. forsætisráðherra standi að sérstöku kynningarátaki um aukna notkun þjóðfánans almennt. Fólk virðist ekki alveg átta sig á því hvernig á að nota þjóðfánann. Það er reyndar hægt að nálgast það á heimasíðu forsætisráðuneytisins, þar er sérstakur flipi um fánann og sérstök slóð til að sjá reglur um notkun hans. En það þarf að árétta skyldu opinberra stofnana til að flagga á opinberum fánadögum. Það er talsverður misbrestur á því. Stofnanirnar bera því stundum við að þessir opinberu fánadagar séu oft um helgar og það sé dýrt að láta húsvörðinn flagga, taka fánann niður o.s.frv. Það á að árétta þessa skyldu að mínu mati. Einnig þarf að árétta að fánaveifur mega vera uppi allan sólarhringinn. Ég er ekki viss um að fólk átti sig almennt á því hvernig má nota fánann. Það væri rétt að gera átak í þessu og má vera að flutt verði þingsályktunartillaga um að forsætisráðherra taki sérstaklega upp slíkt verkefni.

Ég vona, virðulegi forseti, að þetta mál sem mun fara til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fái faglega umfjöllun. Nefndin hefur reyndar áður skoðað þetta vegna þess að þetta er ekki flutt í fyrsta sinn, þ.e. að það megi flagga fánanum á nóttunni á hásumri. Margir þingmenn hafa komið að vinnu þessa máls þegar hin svokallaða allsherjarnefnd, sem nefndin hét í fyrri tíð, skoðaði mál hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur um að nota mætti fánann á íslenskar vörur. Það er því talsverð þekking í þinginu á þessu máli. Ég vona að það taki stjórnskipunar- og eftirlitsnefndina ekki mjög mikinn tíma að skoða þetta mál, veit þó að sú nefnd er alveg að kaffærast út af breytingum á stjórnarskránni en ég vona svo sannarlega að samt verði hægt að skoða þetta mál með jákvæðum hætti og samþykkja það annaðhvort fyrir jól eða næsta vor.

Að mínu mati er frekar mikil samstaða um að gera þessar breytingar. Mér finnst þær vera mjög skynsamlegar. Ég geri mér samt greint fyrir því að það geta komið upp álitamál um hvað er íslenskt að uppruna og hvenær fánanum sé ekki óvirðing sýnd. En ég tel að eins og við höfum komið því fyrir í þessu frumvarpi þá séu þessi óvissuatriði eins lítil og fá og hægt er en hugsanlega komi til ágreinings og þá eigi hæstv. forsætisráðherra að skera úr um og svo þurfi að skoða hvort það sé endanlegur úrskurður eða hvort hægt sé að fara með slík mál fyrir dómstóla og athuga þá hvort hægt sé að hnekkja niðurstöðu forsætisráðherra.

Þetta er málið í hnotskurn, virðulegi forseti. Ég vona að það fái jákvæða umfjöllun og verði samþykkt.