141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla.

203. mál
[18:18]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr):

Virðulegur forseti. Ég flyt tillögu til þingsályktunar um heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla. Flutningsmenn eru sá er hér stendur og hv. þingmenn Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Ólína Þorvarðardóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Lilja Mósesdóttir.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að endurskoða aðalnámskrár grunnskóla og framhaldsskóla með það að markmiði að heimspeki verði skyldufag á báðum skólastigum innan fjögurra ára.“

Greinargerð með þessari tillögu segir, með leyfi forseta:

„Þingsályktunartillaga þessi var flutt á 140. löggjafarþingi (185. mál) og er nú endurflutt óbreytt. Markmið tillögunnar er að efla kennslu í heimspeki og að kenndur verði að meðaltali einn áfangi á hverjum tveimur árum á grunnskólastigi og að meðaltali einn áfangi á hverju skólaári á framhaldsskólastigi.“

Með vísan til 8. bindis skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008, er lagt til að tryggt verði að heimspeki verði skyldufag í grunn- og framhaldsskólum. Eins og fram kemur í skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er nauðsynlegt að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna. Heimspeki og siðfræði ættu að vera skyldufag á öllum skólastigum og þarf að ýta undir þróun í kennslu og námsgagnagerð á því sviði. Mikilvægt er að styrkja ábyrgðarkennd nemenda gagnvart samfélaginu og stuðla jafnframt að gagnrýninni hugsun, sem er ein meginforsenda þess að borgarar geti verið virkir þátttakendur í lýðræðissamfélagi. Með því að auka kennslu í heimspeki í grunn- og framhaldsskólum er lagður grundvöllur að því að styrkja skilyrði siðferðilegrar rökræðu meðal framtíðarborgara landsins á sama tíma og lýðræðislegir innviðir samfélagsins eru treystir. Þar sem um allnokkra breytingu á aðalnámskrám er að ræða er talið æskilegt að gefa ráðherra allt að fjórum árum til að innleiða breytinguna.

Mál þetta er flutt óbreytt í annað sinn. Það var flutt í fyrsta sinn með örlítið öðrum brag þar sem gerðar voru enn ríkari kröfur til heimspekináms, en slegið var af þeim og náðist víðtækara samkomulag um að flytja málið í þessari mynd. Með breytingunni var líka tekinn inn fjögurra ára aðlögunartími því að í þessu tilfelli þarf að endurmennta talsverðan hóp af kennurum í heimspeki, sem er mjög gott. Hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir hefur lýst ánægju sinni með tillöguna og hvatt til þess að hún fái framgang. Það sama hefur hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar gert sem og fjölmargir aðrir þingmenn.

Heimspekigeirinn fagnar líka þessari tillögu. Ég kynnti hana á málþingi um barnaheimspeki í Verzlunarskóla Íslands fyrir um tveimur vikum síðan. Þar fékk tillagan smáumfjöllun og vakti mikinn áhuga hjá þeim þinggestum sem þar voru. Þingið var vel sótt málþing, um 70 heimspekikennarar mættu. Málið er að mínu mati mjög brýnt og mikilvægt.

Sjálfur byrjaði ég á því að taka heimspekiáfanga á sínum tíma þegar ég hóf háskólanám í hagfræði og tel að heimspekikennsla í einhverri mynd eigi að vera á sem flestum stigum skólasamfélagsins, ekki síst í grunnskólum. Það var athyglisvert á málþingi um barnaheimspeki að hlusta á erindi kennara, sem kenna heimspeki, um samskipti þeirra við börn þar sem þeir lýstu hvaða aðferðir þeir notuðu við kennslu og annað slíkt. Þar voru börnin ekki látin læra Aristóteles utan bókar heldur voru ýmsir daglegir þættir í skólastarfinu og leikskólastarfinu samþættir hugmyndum heimspekinnar og börnunum kennt að taka ákvarðanir og kennt að hugsa. Það var mjög athyglisvert.

Ég vona það að tillagan fái góðan framgang. Hún fer síðan beint til allsherjar- og menntamálanefndar. Eins og fram hefur komið hefur formaður nefndarinnar tekið mjög jákvætt í tillöguna og fer hún þá vonandi í gegn á þessu þingi.