141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll.

174. mál
[18:23]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll. Í tillögunni felst að Alþingi álykti að fela innanríkisráðherra að tryggja að á Hornafjarðarflugvelli verði búnaður og aðstaða nægileg til að hægt verði að sinna þar millilandaflugi með minni farþegaflugvélum og vélum í ferjuflugi sem hafa nú heimild til að fljúga um völlinn.

Forsaga málsins er sú að árið 2008 gerðu Flugstoðir greinargerð sem þær skiluðu til samgönguráðuneytisins um ráðstafanir og kostnað við að færa flugvöllinn á Ísafirði, Vestmannaeyjum og Höfn úr flokknum lendingarstaðir í flokk I þannig að þessir flugvellir gætu þjónað millilandaflugi. Í kjölfar þessa beindi ég fyrirspurn til þáverandi samgönguráðherra varðandi þessi mál um hvort til stæði að fara í þær framkvæmdir sem greinargerðin gerir ráð fyrir að hægt væri að fara í til að efla flugvöllinn á Hornafirði. Á þeim tíma, líklega haustið 2009, taldi ráðherra fjármuni ekki vera fyrir hendi í verkefnið en engu að síður tel ég rétt að leggja málið fram vegna þess að ég tel fulla þörf á að byrja að undirbúa málið.

Við sem hér störfum höfum margoft rætt um Vatnajökulsþjóðgarð. Hér hefur margoft verið talað um að sífellt fleiri erlendir ferðamenn muni koma til landsins og þurfum við að bregðast við því með einhverjum hætti, bæði með því að reyna að taka við þessum ferðamönnum með einhverjum hætti og fjölga möguleikunum til að ferðast hingað til lands. Þetta er liður í því.

Flugvöllurinn á Hornafirði gegnir nú þegar mikilvægu hlutverki í samgöngukerfi landsins, bæði fyrir heimamenn sem og okkur sem viljum heimsækja staðinn. Til að efla atvinnulíf á svæðinu enn frekar og til að auka möguleikana á markaðssetningu þjóðgarðsins tel ég að þetta sé augljós kostur til að styrkja atvinnulífið og byggðina fyrir austan.

Í greinargerðinni, sem unnin var að beiðni sveitarstjórna og annarra hagsmunaaðila árið 2008, er tiltekið hvaða ráðstafanir þurfi að gera til að breyta flugvellinum og eins hver kostnaðurinn við breytingar af þessu tagi geti verið. Ég tek það fram að þessar tölur eru frá árinu 2008, en ljóst er að gera þarf að endurbætur við öryggis- og eftirlitsþáttinn á þessum flugvelli þannig að hægt verði að taka á móti minni farþegaflugvélum í millilandaflugi og vélum í ferjuflugi.

Það eru aðallega þrjár reglugerðir sem taka þarf tillit til. Gera þarf að örlitlar breytingar á viðauka 1 við reglugerðum útlendinga og bæta Hornafjarðarflugvelli á lista yfir skilgreindar landamærastöðvar. Auk þess þarf að uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 464/2007, um flugvelli vegna mannvirkja og öryggisstjórnunarkerfis og flugvallarskírteinis, og skilyrði reglugerðar nr. 361/2005, um flugvernd. Samkvæmt reglugerð nr. 464 eiga millilandaflugvellir að falla undir flokkinn flugvöllur I í skilningi reglugerðarinnar en Hornafjarðarflugvöllur er nú skilgreindur sem skráður lendingarstaður. Þegar flugvöllur er fluttur á milli flokka er þar aðallega spurning um aukinn tækjabúnað.

Jafnframt þarf fjölmennara starfslið til að vinna verkefnin, bæði á vellinum sjálfum og hjá miðlægum deildum flugstöðva. Stofnkostnaður sem hlýst af þeim kröfum sem gerðar eru er vegna vopnaleitarbúnaðar, aukins starfsliðs, breytinga á aðstöðu og fleira. Síðan fellur til kostnaður vegna flugverndar, bæði á flugvellinum og í flugstofu.

Mig langar aðeins að vitna í greinargerðina sem hægt er að finna á netinu á svæði ráðuneytisins og eins á svæði Flugstoða. Ljóst er að innleiðing flugvallareglugerðar næst ekki á fullnægjandi hátt með því að bæta við einu stöðugildi, það kemur fram í greinargerðinni. Þetta mun hafa í för með sér aukið álag á miðlæga gæðastjórn og eins starfsemi á flugvellinum sjálfum þannig að fjölga þarf í starfsliði á því sviði. Í greinargerðinni er átt við þessa þrjá flugvelli í einu lagi en í þingsályktunartillögunni er eingöngu talað um Hornafjarðarflugvöll. Miðað við það er gert ráð fyrir að auka kostnað sem nemur 40% starfshlutfalli fyrir hvern nýjan millilandaflugvöll.

Aukið eftirlit með tækjabúnaði fæli í sér aukinn viðbótarkostnað vegna aukins eftirlits við innleiðingu nýs verklags. Þar yrði kostnaðurinn 2 millj. kr. á hvern flugvöll, þ.e. 2 millj. kr. á Hornafjarðarflugvöll. Síðan væri aukinn árlegur kostnaður vegna flugvallarskírteinis við það að færa Hornafjarðarflugvöll, flugvöll sem skráður er sem lendingarstaður í flugvöll í flokki 1, að lágmarki 1,8 millj. kr. Ljóst er að hér fellur til kostnaður, það er mikilvægt að við áttum okkur á því, en ég tel að kostirnir samfara þessari breytingu séu það miklir að það mundi réttlæta þann kostnað.

Aðaltilgangurinn með tillögunni er að vekja athygli á því að hægt er að ráðast í framkvæmd sem efla mundi flugvöllinn á Hornafirði. Væri það samfélaginu og atvinnulífinu þar eystra til góða. Það auki mundi það gefa yfirlýsingu um að hægt er að sýna vilja í verki varðandi eflingu Vatnajökulsþjóðgarðar og fjölga þeim tækifærum sem erlendir ferðamenn hafa, til að stuðla að frekari uppbyggingu og vexti þjóðgarðsins.