141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

grunnskólinn á Tálknafirði.

[10:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Hæstv. innanríkisráðherra hefur til meðferðar mál sem kemur frá menntamálaráðuneytinu og tengist málefnum Tálknafjarðar og skólastarfs þar. Menntamálaráðuneytið hefur vísað málinu til innanríkisráðuneytisins, sem er yfirvald sveitarstjórna, til umfjöllunar og úrlausnar.

Ég veit að það eru um það bil tvær vikur síðan málið var sent til innanríkisráðuneytisins og ég er komin hingað upp til að inna ráðherra eftir því hvenær hann ætli sér að úrskurða í þessu máli. Þetta skiptir hagsmuni þeirra sem búa á Tálknafirði mjög miklu máli en í stóra samhenginu er það þannig að sveitarfélög, oftar en ekki úti á landi, standa oft og tíðum frammi fyrir miklum vanda í rekstri grunnskóla. Þá skiptir máli að tryggja þjónustuna með hvaða hætti sem er.

Skólayfirvöld á Tálknafirði stóðu frammi fyrir því um mánaðamótin apríl/maí að enginn hæfur umsækjandi var að stöðu skólastjóra. Þá þurftu sveitarstjórnaryfirvöld á Tálknafirði sem bera ábyrgð á skólahaldi að leita annarra leiða. Leitað var til Hjallastefnunnar sem er einkarekið fyrirtæki en það skal dregið fram að fjármögnun skólastarfs verður alfarið á hendi sveitarfélagsins. Foreldrar þurfa ekki að greiða eitt eða neitt heldur er einfaldlega verið að tryggja rekstur skólans og að skólastarf fari fram eftir námskrám og svo framvegis.

Þar fyrir utan hafa um 93% barna og foreldra þeirra í Tálknafirði stutt þessa leið sveitarstjórnarinnar í Tálknafirði og þess vegna spyr ég ráðherra: Hvenær kemur úrskurður ráðherra í þessu máli? Það er ríkir hagsmunir að skólastarf sé með eðlilegum hætti í sveitarfélaginu og það á ekki að vera fyrirstaða þó að sá sem sjái um allt skólastarf (Forseti hringir.) og kennslu sé einkaaðili. Því spyr ég ráðherra: Ætlar hann ekki að úrskurða í þessu máli sem fyrst?